Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 249/1981

Gjaldár 1974,1975,1976,1977

Lög nr. 8/1972, 24. gr.   Lög nr. 40/1978, 107. gr.   Lög nr. 68/1971, 48. gr.  

Skattsvik — Fyrning

Með bréfi dags. 28. nóvember 1980, og mótteknu 11. desember 1980, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisskattanefnd til sektarmeðferðar mál G, X-götu, Vestmannaeyjum. í því bréfi segir m. a. um kæruefnið og kröfur:

„Við athugun rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi og bókhaldsgögnum Y h. f., Vestmannaeyjum, árin 1974,1975 og 1976 og skattframtölum þess árin 1975, 1976 og 1977 og skattframtölum gjaldanda sömu ár, í tilefni af kaupum félagsins á X frá Noregi árin 1973 til 1974, hefur komið fram, að til gjaldanda hafa runnið ýmsar greiðslur í norskum krónum í sambandi við kaupin.

Ríkisskattstjóri tók því til ákvörðunar að nýju álagðan tekjuskatt og álagt útsvar G fyrir gjaldárið 1975 með úrskurði dags. 8. okt. 1979. Í úrskurði ríkisskattstjóra segir m. a. í forsendum:

„Gjaldandi hefur ekki sýnt fram á að öllum þessum greiðslum hafi verið ráðstafað til útgerðar X og verður því að telja þær greiðslur sem ekki runnu til útgerðar X til skattskyldra tekna gjaldanda.“

Gjaldahækkun samkvæmt úrskurðinum var sem hér segir:

Tekjuskattur gjaldárið 1975 604 465 kr.

Útsvar gjaldárið 1975 164600 kr.

Gjaldandi kærði ekki úrskurðinn.

Samkvæmt framansögðu skýrði gjaldandi á umræddu skattframtali rangt frá tekjum sínum, þannig að hann greiddi lægri tekjuskatt og útsvar en vera átti. Telja verður að þetta varði gjaldanda sektum skv. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 40/ 1978, sbr. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 8/1972 með áorðnum breytingum.“

Með bréfi ríkisskattanefndar dags. 14. janúar 1981 var gjaldanda gefið færi á að skila vörn í kærumáli þessu. Gerði hann það með bréfi dags. 26. febrúar 1981.

Gjaldandi taldi fram til skatts vegna gjaldársins 1975 og skilaði skattstjóra skattframtali í kærufresti eftir framlagningu skattskrár það ár. Var skattframtalið óbreytt lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda það gjaldár og án tillits til beitingar viðurlaga vegna síðbúinna framtalsskila. Eins og fram kemur í bréfi skattrannsóknarstjóra voru tekjuskattur og útsvar gjaldársins 1975 tekin til endurákvörðunar af ríkisskattstjóra þann 8. október 1979 að undangenginni rannsókn rannsóknardeildar ríkisskattstjóra. Voru stofnar til tekjuskatts og útsvars hækkaðir um 1 496 230 kr. eftir að tekið hafði verið tillit til 25% viðurlaga, sbr. 47. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Nam hækkun tekjuskatts 604 465 kr. og útsvars 164 600 kr.

Refsikröfur á hendur gjaldanda eru fyrndar að því er tekur til meints undandráttar á nefndum gjöldum vegna gjaldársins 1975. Verður því að sýkna gjaldanda af framkominni refsikröfu skattrannsóknarstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja