Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 261/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 1. tl. 1. mgr. 31. gr. Lög nr. 73/1980, 1. mgr. 37. gr.
Bústofnsskerðing — Rekstrarkostnaður — Aðstöðugjaldsstofn — Vanreifun — Frávísun
Kærð er álagning tekjuskatts og útsvars álagt 1980. Kærandi krefst þess að gjöld verði felld niður eða lækkuð stórlega. Þá telur kærandi að álagning aðstöðugjalds sé röng.
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 16. október 1980 gerð svofelld krafa:
„Lækkunarkrafa um tekjuskatt og útsvar virðist ekki rökstudd á annan hátt en þann að kærandi telur álagninguna „óeðlilega“. Aðstöðugjaldsframtal hefur ekki borist frá kæranda en gjaldið virðist ekki ofálagt. Með vísan til þessa virðist kæruefnið vanreifað og er gerð krafa um frávísun þess frá ríkisskattanefnd.
Athygli ríkisskattanefndar er vakin á því að skattstjóri hefur enn ekki lokið rannsókn og endurskoðun á skattframtali kæranda fyrir gjaldárið 1980.“
Skattstjóri lagði skattframtal kæranda gjaldárið 1980 óbreytt til grundvallar álagningu. Kærandi hefur ekki gert nægilega grein fyrir því, hvaða atriði álagningarinnar hann sættir sig eigi við, að öðru leyti en því að hann telur gjaldfærða bústofnsskerðingu ekki eiga að mynda stofn til álagningar aðstöðugjalds. Með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, sbr. og ákvæði 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir bera að hafna kröfu kæranda að því er hið síðastnefnda atriði varðar. Að öðru leyti þykir bera að vísa kærunni frá sökum vanreifunar með því að eigi verður ráðið hvað verið er að kæra.