Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 283/1981

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971   Lög nr. 40/1978, 3. mgr. 101. gr., 99. gr., 100. gr.  

Endurákvörðun ríkisskattstjóra — Beiðni til ríkisskattstjóra — Synjun ríkisskattstjóra um endurupptöku — Kæruheimild — Málskotsréttur

Kærð er álagning tekjuskatts gjaldárið 1977. í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir umboðsmaður kæranda svofellda grein fyrir kröfum sínum:

„Kröfur mínar eru þær, að í fyrsta lagi vísi ríkisskattanefnd málinu ekki frá vegna formannmarka heldur taki nefndin efnisafstöðu til kæruefnisins, og í öðru lagi að hún fallist á kröfur þær sem raktar voru í kæru minni til ríkisskattanefndar, en ekki var unnt að skera úr um með úrskurði ríkisskattanefndar þar eð fyrir vangá hafði umbj. m. í því máli láðst að halda fram kæru skv. 40. gr. laga nr. 68/1971 með síðari breytingum, sjá úrsk. ríkisskattanefndar frá 12. nóv. 1979.

Til rökstuðnings kröfum mínum skal bent á eftirfarandi:

Ekki verður séð að nokkur lagarök leiði til þeirrar niðurstöðu sem greinir í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 19. febr. 1980, Mál 1-0.156.

Málaleitan sú sem synjað var með þeim úrskurði var skattalegs eðlis og varðandi ákvörðun gjaldstofna umbj. m. fyrir gjaldárið 1977. Verður ekki annað ráðið af beinum ákvæðum tilvitnaðrar 3. mgr. 101. gr. laga nr. 40/1978 en að þau leiði til þess að með slíka málaleitan skuli farið á sama hátt og skattkæru, þ. e. a. s. að úrskurð ríkisskattstjóra (sem svarar til ákvörðunar skattstjóra skv. 98 gr.), skuli kæra til ríkisskattstjóra á sama hátt og krefja má skattstjóra endurskoðunar á upptökuúrskurði. Ákvörðun í kæruúrskurði ríkisskattstjóra (sem svarar til úrsk. skattstjóra skv. 99. gr.) þ. e. í tilvíki umbj. m. úrsk. nr. 1-0-156 má því bera undir ríkisskattanefnd skv. ákvæðum 100. gr. laga nr. 40/1978 með síðari breytingum.

Um rök ríkisskattstjóra fyrir synjun um að taka efnisafstöðu til málsins þarf ekki að fjölyrða enda virðast þau næsta haldlítil og nokkuð langsótt. T. a. m. er mér kunnugt um a. m. k. eitt mál sem varðaði synjun ríkisskattstjóra á endurupptöku í gildistíð laga nr. 68/ 1971, sem sætti efnislegri úrlausn ríkisskattanefndar. Hvað varðar „leiðbeiningar um kærufresti“ skal tekið fram að vöntun á slíku getur aldrei tekið af þegnunum lagalegan rétt.

Um efnisatriði kæru minnar vil ég taka það eitt fram að ég get með engu móti fallist á að umbj. m. beri að una órökstuddri og óréttmætri útstrikun skattstjóra á frádráttarliðum sem leiddu til verulegrar hækkunar tekjuskatts umbj. m. Kostnaður sá sem umbj. m. hafði af því að koma húseign sinni í það horf sem hún var eftir viðgerðir virðist eðli sínu samkvæmt viðhaldskostnaður í skattalegum skilningi. Verður ekki séð að ástæða sé til þess að reifa málefnið frekar en gert var í upphaflegri kæru minni til ríkisskattanefndar og vísast um frekari rökstuðning til þeirrar kæru, en röksemdum ríkisskattstjóra í upptökuúrskurði hans dags. 19. febrúar 1980, Mál 1-0-156, mótmæli ég alfarið.

Fallist ríkisskattanefnd ekki á að gera breytingar á viðhaldsfrádrætti en telji málið engu að síður formlega rétt undir nefndina borið, þ. e. a. s. að synjunarúrskurður sá er ríkisskattstjóri kvað upp í máli 1-0-156 sé kæranlegur eftir leiðum 100. gr. laga nr. 40/1978 með síðari breytingum, óska ég sérstaklega eftir að það komi fram í úrskurði nefndarinnar í þessu máli.“

Af hálfu ríkisskattstjóra eru gerðar svofelldar kröfur í bréfi dags. 25. september 1980:

„Að kærunni verði í engu sinnt af ríkisskattanefnd þar eð ekki verður séð að fyrir liggi úrskurður, kæranlegur eftir reglum 100. gr. skattalaga, um málefni kæranda.

Jafnvel þó svo verði talið að bréf ríkisskattstjóra, dags. 12. mars 1980, teldist kæruúrskurður, sbr. 99. gr. laga nr. 40/1978, þá hlýtur kæra að teljast of seint gerð þar eð hún berst ekki ríkisskattanefndinni eða starfsstöð hennar fyrr en 35 dögum eftir að bréf ríkisskattstjóra var póstlagt, sem er þá 5 dögum of seint.“

Með því að ríkisskattstjóri neytti ekki heimildar sinnar sbr. 3. mgr. 101. gr. laga nr. 40/ 1978 um tekjuskatt og eignarskatt til breytinga á þegar álögðum gjöldum kæranda, hefur engin sú ákvörðun verið tekin sem kæranleg sé eftir reglum 99. og 100. gr. sömu laga. Ber þegar af þessum ástæðum að vísa kæru kæranda frá ríkisskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja