Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 249/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Greinargerð um vaxtagjöld — Húsbyggingarskýrsla — Fylgigögn skattframtals — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Langtímalán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis — Skammtímalán vegna öflunar íbúðarhúsnæðis — Kaupár — Kaupár íbúðarhúsnæðis — Húsbyggjandi — Húsbygging — Byggingartími — Byggingarsjóður ríkisins — Greiðsluerfiðleikalán — Skuldbreyting — Skuldbreytingarlán — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra

Málavextir eru þeir, að í framhaldi af bréfi sínu, dags. 15. desember 1989, og að fengnu svarbréfi kærenda, dags. 19. desember 1989, tilkynnti skattstjóri kærendum hinn 9. júlí 1990, að vaxtagjöld samtals 173.103 kr. af lánum við Sparisjóð vélstjóra hefðu verið felld niður af greinargerð um vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa og þar með úr reit 87 í skattframtali árið 1989 og færð í reit 88. Vísaði skattstjóri til þess, að skv. bráðb. ákvæði I í lögum nr. 92/1987 ,um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, miðaðist vaxtaafsláttur við vaxtagjöld, er frádráttarbær hefðu verið skv. 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Skv. þeirri lagagrein hefði frádráttarbærni vaxtagjalda takmarkast við skuldir, er sannanlega hefðu verið notaðar til öflunar eða endurbóta á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Samkvæmt framkomnum upplýsingum hefðu kærendur keypt íbúðarhúsnæði að X á árinu 1981 og væri því loku fyrir það skotið, að skuldir, er stofnað hefði verið til 1985 og síðar gætu uppfyllt lagaskilyrði um frádráttarbærni. Af hálfu kærenda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 7. ágúst 1990. Gerðu kærendur grein fyrir málavöxtum af sinni hálfu. Húsið X hefði verið keypt í október 1981 og verið afhent fokhelt í mars 1982 og flutt í það ófrágengið í maí 1982. Húsbyggingarskýrslu hefði verið lokað í desember 1983, þótt ýmislegt hafi vantað svo sem allar innihurðir. Vegna geysilegrar verðbólgu hefði andvirði selds íbúðarhúsnæðis mjög brunnið upp og fjármögnunaráætlanir gengið úr skorðum. Í lok ársins 1983 hefði fengist greiðsluerfiðleikalán hjá Byggingarsjóði ríkisins. Í júní 1984 og janúar 1986 hafi fengist lífeyrissjóðslán og í janúar 1987 annað greiðsluerfiðleikalán. Allan tímann hafi Sparisjóður vélstjóra hlaupið undir bagga, síðast árið 1988. Öll lánin hefðu farið í að afla og halda íbúðarhúsnæðinu. Árið 1989 hafi verið fyrsta árið, síðan bygging var hafin, er ekki hafi þurft að taka lán til þess að greiða afborganir. Með kæruúrskurði, dags. 21. ágúst 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda á þeim forsendum, að skilyrði fyrir vaxtaafslætti vegna skuldbreytingarlána væru, að lánin væru veðtryggð og a.m.k. til 8 ára. Skuldir við Sparisjóð vélstjóra frá árunum 1985-1988 væru til skemmri tíma en 8 ára og uppfylltu því ekki nefnd skilyrði.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 14. september 1990. Í bréfi, dags. 22. október 1990, gerði umboðsmaðurinn grein fyrir kröfum sínum og rökstuðningi varðandi þetta kæruatriði. Segir svo í bréfinu:

„Skattstjóri felldi niður vaxtagjöld af þremur lánum sem tekin voru hjá Sparisjóði vélstjóra. Fyrsta lánið var tekið árið 1985, upphaflega að upphæð kr. 400.000, með veði í húsi umbjóðanda okkar og var til fjögra ára. Annað lánið var tekið árið 1986, upphaflega að upphæð kr. 200.000 með sjálfskuldarábyrgð og var til eins árs. Þriðja lánið var tekið árið 1988, upphaflega kr. 520.000, með sjálfskuldarábyrgð og til þriggja ára. Við gerum ekki athugasemd við niðurfellingu á vöxtum vegna lánsins sem var einungis til eins árs, vegna þess að það var til skemmri tíma en tveggja ára uppfyllir það ekki skilyrði til vaxtafrádráttar. Hins vegar gerum við athugasemd við niðurfellingu vaxta á hinum tveimur lánunum. Niðurfelling skattstjóra er byggð á því að vegna þess að íbúðarhúsnæðið var byggt árið 1981 en lánin tekin árið 1985 og 1988 séu þau ekki tekin til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Eins og umbjóðandi rakti í bréfum sínum til skattstjóra keypti hann fokhelt raðhús árið 1981. Eins og margir aðrir á þeim tíma lenti hann í miklum greiðsluerfiðleikum og þurfti því að taka ný lán til að geta staðið í skilum með afborganir og vexti af eldri lánum vegna íbúðakaupanna.

Á bls. 6 í kafla 14 í verklagsreglum ríkisskattstjóra viðkomandi álagningu á skattframtöl einstaklinga, útgáfa 04.86, segir eftirfarandi:

„Þegar tekið er lán og því varið til greiðslu á skuldum ( þ.m.t. viðskiptaskuldum), áföllnum vöxtum og verðbótum sem uppfylltu skilyrði E-liðs 1. mgr. 30. gr. laganna, telst nýja skuldin uppfylla einnig skilyrði lagagreinarinnar ef umræddar lántökur fara fram innan 4 ára eða 7 ára tímamarkanna eftir því sem við á. Áfallnir vextir og verðbætur hinna uppgreiddu skulda teljast þá gjaldfallnir og greiddir og leyfast til frádráttar á því ári, enda þótt þeir myndi hluta höfuðstóls nýrrar skuldar. Ef lántaka fer fram utan framangreindra tímamarka uppfyllir nýja skuldin ekki skilyrði lagagreinarinnar þótt henni sé varið til að greiða upp skuldir sem teknar voru til öflunar íbúðarhúsnæðis og vextir og verðbætur hinnar nýju skuldar því ekki frádráttarbærir.“

Samkvæmt ofangreindum fyrirmælum ríkisskattstjóra til starfsmanna skattstofanna eru vaxtagjöldin af láninu sem tekið var 1985 frádráttarbær því það er tekið innan sjö ára frá því að bygging húsnæðis hófst. Í 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, eins og þau hljóðuðu fyrir samþykkt laga nr. 49/1987 er hvergi minnst á tímamörk skulda ef um er að ræða vaxtagjöld vegna fasteignaveðlána til a.m.k. tveggja ára eða skulda við lánastofnanir með sjálfskuldarábyrgð til a.m.k. tveggja ára. Eina skilyrðið er að skuldirnar séu tilkomnar vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota.

Með hliðsjón af framangreindu förum við fram á að vaxtagjöld af lánum sem tekin voru á árunum 1985 og 1988, samtals kr. 148.659 verði tekin með í ákvörðun á vaxtaafslætti.“

Með bréfi, dags. 5. júlí 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur um bæði kæruefnin með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður, er gefi tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Krafa kærenda varðandi þetta kæruatriði varðar rétt þeirra til vaxtaafsláttar skv. ákvæði til bráðabirgða I í lögum nr. 49/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og bráðabirgðaákvæði þetta hljóðaði eftir að því hafði verið breytt með 14. gr. laga nr. 92/1987. Samkvæmt ákvæði þessu ákvarðast vaxtaafsláttur eftir ákveðnum reglum á grundvelli þeirra ákvæða um frádrátt vaxtagjalda, sem voru í 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar litið er til síðastnefndra ákvæða og þess, sem fyrir liggur um hinar umþrættu lántökur hjá Sparisjóði vélstjóra, og annars þess, sem máli þykir skipta í þessum efnum, er fallist á það með kærendum, að vaxtagjöld af báðum lánunum uppfylltu skilyrði nefnds lagaákvæðis, en kærendur halda ekki fram kröfu sinni að því er varðar þriðja lánið frá fyrrnefndri lánastofnun. Samkvæmt þessu hækka vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar um 148.659 kr. frá því sem skattstjóri hefur ákveðið.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja