Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 303/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 73/1980, 26. gr. Lög nr. 40/1978, 69. gr.
Einstætt foreldri — Barnabætur — Samvistarslit — Hjón — Skilnaður að borði og sæng — Útreikningur barnabóta — Aðsetursskipti — Börn — Framfærsla — Sönnunargögn
Málavextir eru þeir, að við álagningu opinberra gjalda árið 1980 voru kæranda ákvarðaðar 385 832 kr. í barnabætur vegna tveggja barna, K f. 29. 03. 1970 og B f. 24. 10. 1974. Þessi ákvörðun var kærð til skattstjóra með bréfi dags. 20. ágúst 1980. Krafðist umboðsmaður kæranda þess, að ákvarðaðar yrðu fullar barnabætur með báðum börnunum, en ekki einungis hluti svo sem skattstjóri hefði ákveðið. Þau rök voru fram færð, að kærandi og fyrrum eiginmaður hennar hefðu slitið samvistum í nóvember 1978. Hefði kærandi ein annast framfærslu beggja barnanna, en fyrrverandi eiginmaður greitt meðlög. Lagt var fram ljósrit kvittunar Manntalsskrifstofunnar í Reykjavík fyrir móttöku tilkynningar um aðsetursskipti, þar sem fram kæmi að fyrrverandi eiginmaður hefði þann 15. janúar 1979 tilkynnt aðsetursskipti.
Með úrskurði dags. 24. október 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Tekið er fram í úrskurðinum, að barnabótum hefði við álagningu verið skipt jafnt milli kæranda og eiginmanns hennar fram að skilnaði að borði og sæng, er skv. upplýsingum í skattframtölum beggja hefði farið fram 15. júlí 1979. Eftir þann tíma hefði kærandi fengið fullar barnabætur með tveimur börnum sem einstætt foreldri. Ekki hefðu komið fram fullnægjandi rök til þess að breyta þessu.
Úrskurði skattstjóra hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 11. nóvember 1980 og ítrekar fyrri kröfur. Til viðbótar áður sendum gögnum var lagt fram ljósrit af leyfisbréfi til skilnaðar að borði og sæng, dags. 5. júlí 1979, þar sem m. a. kemur fram að upphaf greiðsluskyldu meðlags af hendi fyrrverandi eiginmanns með börnunum er ákveðið frá 1. desember 1978.
Með bréfi dags. 29. desember 1980 fellst ríkisskattstjóri á kröfur kæranda með hliðsjón af framlögðum gögnum.
Að virtum gögnum málsins og með skírskotun til ákvæða 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1980, um breyting á þeim lögum, þykir bera að ákveða kæranda barnabætur með nefndum börnum óskipt og eftir þeim reglum sem um einstætt foreldri gilda í þessum efnum. Verður fjárhæð barnabóta samkvæmt þessu 625 000 kr. Þá þykir bera að leiðrétta lækkun útsvars vegna barnanna hjá kæranda til hækkunar úr 9 917 kr. í 14 000 kr. eða lækkun útsvars vegna fjölskyldu samtals úr44 917 kr. 149 000 kr., sbr. 26. gr. laga nr. 8/1972, um tekjustofna sveitarfélaga, og 6. gr. laga nr. 13/1980, um breyting á þeim lögum, sbr. nú 26. gr. laga nr. 73/1980. Það athugast, að skattstjóri hefur í reynd miðað skiptingu barnabóta við 1. ágúst 1979, þótt fullyrt sé í úrskurði hans að skiptingin hafi verið miðuð við 15. júlí 1979, og látið skiptinguna standa á heilum mánuði. Slík útreikningsaðferð er andstæð lögum.