Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 308/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 1. mgr. 100. gr.   Lög nr. 68/1971, 11. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr.  

Frestun skattlagningar söluhagnaðar — Atvinnuhúsnæði — Vanreifun — Frávísun — ófullkomin reikningsskil — Byggingarkostnaður — Kærufrestur — Komudagur kæru

Kærð er álagning eignarskatts gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að í septembermánuði árið 1978 seldi kærandi eignarhluta sinn í neðri hæð fasteignarinnar X í Kópavogi, er var í smíðum. Eignarhlutdeild kæranda í húsi þessu er 50% á móti A sf. Samkvæmt kaupsamningi, er fyrir liggur í málinu, var eignarhlutinn seldur í fokheldu ástandi. Söluverð var 19 150 000 kr. Samkvæmt húsbyggingarskýrslu, er fylgdi skattframtal kæranda árið 1979, nam byggingarkostnaður X í árslok 1978 24 579 287 kr. og hlutur kæranda í honum 12 326 884 kr. Byggingarkostnaður í árslok 1977 er í skýrslu þessari tilgreindur 2 525 517 kr. í efnahagsreikningi kæranda þann 31. 12. 1978 er helmingur söluverðs eða 9 575 000 kr. færður til skuldar og skráð þar að söluhagnaði sé frestað. Virðist svo sem ætlun hafi verið að nýta þá heimild, er greinir í 11. mgr. E-liðar 1. gr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, til frestunar á skattlagningu skattskylds söluhagnaðar um tvenn áramót.

Í efnahagsreikningi þann 31. 12. 1979 er hlutur kæranda í söluverði þessu færður sem óskattlagt eigið fé. Ágreiningur reis um ákvörðun eignarskattsstofns kæranda gjaldárið 1980. M. a. taldi skattstjóri hreina eign til skatts vantalda um „óskattlagðan söluhagnað færðan á höfuðstól 9 575 000 kr.“ Því sjónarmiði skattstjóra telur kærandi sig ekki geta unað og hefur með kæru, dags. 22. nóvember 1980, skotið úrskurði skattstjóra, dags. 22. nóvember 1980, til ríkisskattanefndar. Tekur umboðsmaður kæranda fram, að stofnverð eignarinnar hafi ekki verið lækkað um hina umdeildu fjárhæð og myndi hún því ekki stofn til eignarskatts. Söluverð hafi verið sett undir liðinn eigið fé í efnahagsreikningi en ekki undir skammtímaskuldir eins og réttara hefði verið.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist að bréfi, dags. 11. mars 1981, að kærunni verði vísað frá þar sem hún sé of seint fram komin.

Samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, skal kærufrestur til ríkisskattanefndar vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður skattstjóra er dagsettur þann 22. október 1980 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Síðasti dagur kærufrests var því 21. nóvember 1981, en þann dag telst kæran hafa borist ríkisskattanefnd. Verður því kærunni eigi frávísað á þeim forsendum að hún sé of seint fram komin.

Kærandi hefur fært sem frestun á skattlagningu skattskylds söluhagnaðar samkvæmt heimild í 11. mgr. E-liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, hlut sinn í söluverði þeirra eignar er seld var í smíðum. Skipting byggingarkostnaðar á hina einstöku húshluta hefur ekki verið gerð og útreikningur hagnaðar hins selda húshluta hefur ekki verið gerður. Með tilliti til þessara annmarka á framtalsgögnum kæranda og varða kæruefnið, verður eigi fallist á kröfu hans og svo sem málið er vaxið þykir rétt að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja