Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 309/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, D-liður 1. mgr. 30. gr., 2. mgr. 30. gr. 63. gr., 1. mgr. 100. gr.  

Kærufrestur — Fastur frádráttur — Lífeyristryggingargjald — Frávísun — Kröfugerð — Sköttun hjóna — Kæra tilefnislaus

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði skattstjóra staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1980, dags. 6. mars. 1980. í skattframtalinu völdu kærandi og eiginmaður hennar frádráttarreglu þá er greinir í 2. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, þ. e. a. s. í stað þess frádráttar, er greinir í D og E-liðum 1. mgr. nefndrar lagagreinar, var valið að draga 10% af nánar tilgreindri teknafjárhæð til frádráttar. Nam fastur frádráttur eiginmanns kæranda samkvæmt þessu 386 377 kr. og fastur frádráttur kæranda 417 091 kr. Frádráttur eiginmanns samkvæmt D- og E-lið 1. mgr. 30. gr. skattalaga var tilgreindur í skattframtali samtals 161 791 kr. og kæranda 164 457 kr. Með bréfi dags. 2. apríl 1980 óskaði kærandi eftir því við skattstjóra að hann heimilaði til frádráttar þær fjárhæðir, er inntar hefðu verið af hendi vegna lífeyristryggingar kæranda hjá „X“ í Vínarborg, Austurríki. Kærandi, sem er af austurrísku bergi brotin, gerði grein fyrir því að hún hygðist flytjast til Austurríkis þá er lífeyrir fengist samkvæmt þessari tryggingu. Kvaðst kærandi hafa greitt tilgreindum aðila, er lagt hefði út vegna nefndrar lífeyristryggingar, 897 675 kr. á árinu 1979. Hinar háu fjárhæðir kvaðst kærandi verða að greiða til þess að hún missti ekki lífeyrisréttindi þau, er hún hefði haft síðan hún fluttist frá Austurríki. Ýmis gögn fylgdu bréfi kæranda. Ekki tók skattstjóri tillit til þessa við álagningu árið 1980. Bréf kæranda sýnist skattstjóri hafa tekið sem skattkæru og felldi úrskurði þann 8. október 1980. Synjaði skattstjóri kröfu kæranda með vísan til 1. tl. D-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978 með því að umrædd lífeyristrygging fullnægði ekki þeim skilyrðum er sett væru í nefndri lagagrein.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 5. nóvember 1980. Bárust og ýmis gögn með bréfi dags. 12. nóvember 1980. Gerir kærandi frekari grein fyrir kröfum sínum. M. a. kemur fram, að vegna of lágra greiðslna til lífeyristryggingar þessarar á tímabili séu iðgjaldagreiðslur nú mjög háar og sé því að hluta um eftirágreiðslur að ræða.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 29. desember 1980:

„Skv. 99. gr. laga nr. 40/1978 hefst 30 daga kærufrestur til skattstjóra frá og með dagsetningu auglýsingar um að álagningu sé lokið eða frá og með póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun. Skv. 1. mgr. 100. gr. sömu laga er kærufrestur til ríkisskattanefndar 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Eðlilegt er að túlka 1. mgr. 100. gr. í samræmi við orðalag 99. gr. og telja kærufrest til ríkisskattanefndar því hefjast á póstlagningardegi úrskurðar skattstjóra. Skv. framansögðu barst kæra gjaldanda til ríkisskattanefndar á 31. degi og verður því að telja hana of seint framkomna. Er því gerð krafa um frávísun kærunnar."

Í 2. ml. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, segir, að kærufrestur til ríkisskattanefndar skuli vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður er dagsettur 8. október 1980 og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Kæran, sem dagsett er 5. nóvember 1980, barst ríkisskattanefnd 7. s. m. Kærufrestur til ríkisskattanefndar byrjar að líða næsta dag á eftir póstlagningardegi úrskurðar skattstjóra. Síðasti dagur kærufrests var því í tilviki kæranda 7. nóvember 1980. Samkvæmt framansögðu hefur kæran borist ríkisskattanefnd fyrir lok kærufrests. Verður kærunni því eigi vísað frá á þeim forsendum að hún sé of seint fram komin.

Á hinn bóginn, þegar litið er til þess hámarks er frádrætti vegna iðgjalda af lífeyristryggingu er sett Í2. ml. 1. mgr. 1. tl. D-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, þ. e. a. s. 11% af þeim launum sem almennt eru til viðmiðunar slíkum greiðslum, svo og þess ákvæðis 2. mgr. sömu lagagreinar, að hjónum, sem skattlögð eru samkvæmt 63. gr. laganna beri að velja sömu frádráttarreglu, þ. e. a. s. annaðhvort fastan frádrátt eða frádrátt samkvæmt D-og E-liðum 1. mgr. nefndrar lagagreinar, leiðir krafa kæranda til mun óhagfelldari skattlagningar kæranda og eiginmanns hennar en þau sættu við álagningu á grundvelli óbreytts skattframtals. Af þessum sökum þykir bera að vísa kærunni frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja