Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 251/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og C-liður 9. tl. — 28. gr. 4. tl. — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 4. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Húsbygging — Húsbyggjandi — Byggingartími — Andmælareglan — Breytingarheimild skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Íbúðarhæfi — Byggingarár — Skattskyldar tekjur — Eignaauki — Eigin vinna — Eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Skattskyld eigin vinna við íbúðarhúsnæði — Eignaauki vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæði — Eignaauki, skattfrjáls — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattskyldur — Skattskyldur eignaauki — Húsbyggingarskýrsla — Kæranleg skattákvörðun — Kæruheimild — Kæranleiki

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1989. Kæruefni eru sem hér segir:

1. Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar.

Málavextir eru þeir, að hinn 25. janúar 1990 reit skattstjóri kærendum bréf, þar sem hann krafðist þess, að skuldir og vaxtagjöld á RSK 3.09 yrðu sundurliðuð á íbúðarhúsnæði að A, Reykjavík, annarsvegar og hinsvegar á íbúðarhúsnæði að B, Reykjavík. Vaxtagjöld í greinargerðum kærenda (RSK 3.09) námu alls 632.084 kr. Skattstjóri tók fram, að samkvæmt skattframtölum kærenda hefðu húseignir þessar báðar verið í byggingu á umliðnum árum. Vísaði skattstjóri til þess, að samkvæmt 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, heimiluðust einungis til frádráttar þau vaxtagjöld af skuldum, sem sannanlega hefði verið stofnað til vegna öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Lögheimili kærenda hefði verið að A, Reykjavík, á undanförnum árum. Boðaði skattstjóri niðurfellingu vaxtagjalda af skuldum, er tilheyrðu B, Reykjavík. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 3. febrúar 1990, var því haldið fram, að vaxtagjöld vegna skulda tilheyrandi A, Reykjavík, næmu 534.355 kr. Þá var því haldið fram, að íbúðarhúsnæðið að B, Reykjavík, væri til eigin nota, þar sem stefnt væri að því að flytja í það húsnæði strax og það yrði íbúðarhæft. Hinn 26. febrúar 1990 tilkynnti skattstjóri kærendum um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1989 vegna lækkunar vaxtagjalda í reit 87. Lækkunarfjárhæð fólst í fyrsta lagi í vaxtagjöldum 45.944 kr. er ágreiningslaust var að stöfuðu af bifreiðakaupalánum. Í öðru lagi felldi skattstjóri niður vaxtagjöld af lánum vegna B, Reykjavík, er samkvæmt upplýsingum kærenda námu 51.785 kr. Byggði skattstjóri lækkun þessa á því, að íbúðarhúsnæðið að B gæti ekki talist til eigin nota. Í þriðja lagi lækkaði skattstjóri vaxtagjöld vegna lána tilheyrandi A, Reykjavík, um 329.320 kr. Sagði svo um þetta atriði í endurákvörðuninni:

„Þá hefur skattstjóri ákveðið að fella niður vaxtagjöld að fjárhæð kr. 25.161 v/Landsbanka Íslands, kr. 12.832 v/Landsbanka Íslands, kr. 47.275 v/Landsbanka Íslands, kr. 55.006 v/Alþýðubanka Íslands, kr. 35.524 v/Samvinnubanka Íslands, kr. 76.440 v/Sparisjóðs Hafnarfjarðar, kr. 36.946 v/Iðnaðarbanka Íslands, kr. 40.136 v/Landsbanka Íslands, eða samtals kr. 329.320. Öll framangreind lán eru tekin meira en sex árum eftir að bygging hófst á húsnæði yðar að A og heimilast því vaxtagjöld af þeim ekki til frádráttar, sbr. 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eins og þau ákvæði hljóðuðu fyrir gildistöku laga nr. 49/1987.“

Af hálfu umboðsmanns kærenda var endurákvörðun skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 24. mars 1990. Beindist kæran að niðurfellingu vaxtagjalda vegna íbúðarhúsnæðis að B, Reykjavík, og lækkun vaxtagjalda vegna A, Reykjavík. Ítrekað var, að íbúðarhúsnæðið að A væri til eigin nota. Þá var lagt fram vottorð Hagstofu Íslands, þjóðskrár, dags. 5. mars 1990, þess efnis, að kærendur hefðu haft lögheimili að A, Reykjavík, frá árinu 1982. Var vísað til þess, að lagareglur um vaxtafrádrátt í ákvæðum 1. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þau ákvæði hljóðuðu fyrir samþykkt laga nr. 49/1987, hefðu mælt fyrir um frádráttarheimild í allt að 7 skattár eftir að búseta hófst. Með kæruúrskurði, dags. 23. júlí 1990, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Tók skattstjóri fram, að frádráttarheimild vegna lána tilheyrandi A, Reykjavík, tæki til skulda sem stofnað hefði verið til árin 1978 — 1984, en bygging hefði hafist árið 1978. Þá væri ekki á það fallist, að B væri til eigin nota, en það íbúðarhúsnæði hefði verið í byggingu undanfarin 9 ár.

Af hálfu umboðsmanns kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. ágúst 1990. Ítrekar umboðsmaðurinn kröfur sínar varðandi fjárhæð vaxtagjalda til ákvörðunar vaxtaafsláttar.

2. Eigin vinna við íbúðarhúsnæði. Samkvæmt húsbyggingarskýrslu fyrir árið 1988 vegna byggingar íbúðarhúsnæðis að B, Reykjavík, nam aukavinna kæranda, X, við húsnæðið samtals 60.450 kr. Samkvæmt gögnum málsins færði skattstjóri kæranda, X, þennan eignaauka til tekna á þeim forsendum, að hann félli ekki undir ákvæði 4. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fór skattstjóri með breytingu þessa eftir ákvæðum 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. bréf skattstjóra, dags. 26. júlí 1989. Ekki verður séð, að kærandi hafi kært þessa breytingu í kærufresti til skattstjóra. Í svarbréfi umboðsmanns kærenda, dags. 3. febrúar 1990, við bréfi skattstjóra, dags. 25. janúar 1990, út af vaxtagjöldum, sbr. 1. tl. hér að framan, var farið fram á, að aukavinna við íbúðarhúsnæðið að A, Reykjavík, 10.450 kr. yrði skattlögð en skattlagning aukavinnu við B, Reykjavík, 60.450 kr. felld niður. Var vísað til þess, að aukavinna við A hefði verið skattlögð á framtölum árin 1987 og 1988 en láðst hefði að tekjufæra vinnuna á framtali árið 1989. Skattstjóri veitti þessu kæruatriði úrlausn í endurákvörðun sinni, dags. 26. febrúar 1990, og synjaði kröfu kærenda á þeim forsendum, að ekki hefði verið sýnt fram á, að íbúðarhúsnæðið að B, Reykjavík, væri til eigin nota. Synjun þessari var mótmælt í kæru, dags. 24. mars 1990. Í kæruúrskurði, dags. 23. júlí 1990, hafnaði skattstjóri kröfu kærenda á þeim forsendum, að aukavinna við B, Reykjavík, væri skattskyld skv. 9. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem ekki væri um að ræða íbúðarhúsnæði til eigin nota. Í kæru til ríkisskattanefndar, dags 21. ágúst 1990, ítrekar umboðsmaðurinn kröfu sína varðandi þetta kæruatriði.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þær kröfur í máli þessu f.h. gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Um 1. tl. Út af fyrir sig er á það fallist með skattstjóra, að kærendum beri ekki réttur til þess að vaxtaafsláttur ákvarðist á grundvelli vaxtagjalda af lánum til öflunar beggja þeirra húseigna, sem í málinu greinir, en framtalsskil og kröfugerð kærenda felur það í sér. Af þessum ástæðum er kröfu kærenda synjað að því er varðar vaxtagjöld af lánum tilheyrandi B, Reykjavík, sem óumdeilt er að nemi 51.785 kr. Í þessu sambandi er rétt að fram komi, að af hálfu kærenda hefur því ekki verið haldið fram, að húseignin að A, Reykjavík, væri ekki til eigin nota. Þegar litið er til þeirrar ákvörðunar skattstjóra að lækka vaxtagjöld af lánum vegna þeirrar húseignar um 329.320 kr. er það að athuga við málsmeðferð skattstjóra, að ekkert er að breytingu þessari vikið í bréfi hans, dags. 25. janúar 1990. Það var því fyrst í hinni umdeildu endurákvörðun, dags. 26. febrúar 1990, að kærendum var gerð grein fyrir breytingu þessari. Áttu kærendur þess því ekki kost að koma að athugasemdum sínum, skýringum og eftir atvikum gögnum, áður en breytingin var framkvæmd. Var hér því um að ræða brýnt brot á lögmæltum andmælarétti kærenda og ber því þegar af þeim sökum að ómerkja þessa breytingu.

Um 2. tl. Skattstjóri hefur veitt efnislega úrlausn í kæruúrskurði sínum, dags. 23. júlí 1990, breytingu, er hann framkvæmdi fyrir álagningu gjaldárið 1990, sbr. bréf hans, dags. 26. júlí 1989, er ekki var kærð til hans í kærufresti. Að svo vöxnu liggur fyrir kæranleg ákvörðun varðandi þennan þátt málsins. Að virtum málavöxtum þykir kærandi, X, ekki hafa sýnt fram á, að hann geti notið skattfrelsis þess eignaauka vegna eigin vinnu við íbúðarhúsnæðið að B, Reykjavík. Er kröfu hans því synjað varðandi þetta kæruatriði.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja