Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 412/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 1. mgr. 59. gr.
Kærufrestur — Reiknað endurgjald — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Lögmaður
Málavextir eru þeir, að kærandi, sem var starfandi lögmaður, taldi eigi fram til skatts á tilskildum tíma árið 1980. Skattstjóri áætlaði honum því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. í framhaldi af bráðabirgðakæru dags. 29. ágúst 1980 barst skattframtal kæranda árið 1980 með bréfi dags. 23. október 1980. Með úrskurði dags. 12. desember 1980 féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar áður með þeim breytingum, að reiknað endurgjald við eigin atvinnurekstur var hækkað um 1 700 000 kr. eða úr 6 400 000 kr., er kærandi hafði tilfært, í 8 100 000 kr. Tekið er fram í úrskurðinum, að breyting þessi sé gerð í samræmi við 59. gr. laga nr. 40/1978 og viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, dags. 5. og 13. maí 1980. Eftir breytinguna væri tap á rekstrarreikningi og leyfðist því ekki fyrning verðbreytingarfærslu 215 000 kr., sbr. lokamálsgr. 44. gr. laga nr. 40/1978. Yfirfæranlegt tap til næsta árs yrði 1 483 393 kr. Hreinar tekjur af atvinnurekstri námu 1 607 kr. skv. rekstrarreikningi svo sem hann var af hendi kæranda.
Með kæru dags. 9. janúar 1981 hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og mótmælir þeim breytingum er skattstjóri gerði. Vísar umboðsmaðurinn til ákvæða 1. mgr. 59. gr. nefndra laga, þar sem fram komi að skattstjóri skuli gæta aðstöðu skattaðila, aldurs hans, heilsu og starfstíma, umfangs starfs og annarra atriða er máli skipta. Kærandi gangi ekki heill til skógar og er lagt fram vottorð læknis því til sönnunar. Hafi hann verið frá starfi af þeim sökum 1 mánuð á árinu 1979 og auk þess tekið 2 mánuði í sumarfrí, m. a. sökum vanheilsu. Þá hafi eigin rekstur hafist á árinu 1978 og af þeim sökum hefði rekstrargrundvöllur ekki verið þannig, að hann bæri há laun. Megi af þessu sjá, að full rök séu fyrir tilfærðu reiknuðu endurgjaldi.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 28. apríl 1981 að kærunni verði vísað frá á þeim forsendum að hún sé of seint fram komin.
Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnisúrlausnar. Að virtum gögnum málsins þykja engin efni hafa verið til þess að vefengja fjárhæð þess endurgjalds sem kærandi hefur talið sér til tekna vegna vinnu við eigin atvinnurekstur. Er því fallist á kröfur kæranda.