Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 421/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 38. gr., sbr. 37. gr. Reglugerð nr. 245/1963, 25. gr. Lög nr. 40/1978, 1. mgr. 100. gr.
Kærufrestur — Sönnun — Sönnunargögn — Komudagur kæru — Endurákvörðun — Viðhaldskostnaður — Málsmeðferð áfátt — íbúðarhúsnæði
Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 1. ágúst 1979 krafði skattstjóri kæranda um reikninga fyrir tilfærðum viðhaldsfrádrætti íbúðarhúsnæðis, 284 507 kr., svo og um greinargerð um viðhaldsframkvæmdirnar. Skriflegt svar skyldi hafa borist innan 10 daga frá dagsetningu bréfsins, ella mætti búast við lækkun eða niðurfellingu þessa frádráttarliðar. Með bréfi dags. 13. desember 1979 tilkynnti skattstjóri kæranda, að viðhaldskostnaður hefði verið lækkaður um 184 507 kr. eða úr 284 507 kr. í 100 000 kr. vegna ósvaraðs bréfs. Með skattbreytingaseðli, dags. sama dag, tilkynnti skattstjóri kæranda um þá hækkun áður álagðra opinberra gjalda, sem af fyrrnefndri breytingu leiddi, þ. e. hækkun tekjuskatts um 74 538 kr. Ákvörðun skattstjóra var kærð með bréfi dags. 27. desember 1979 og fylgdu því bréfi reikningar vegna viðhaldsins. í kærunni gat kærandi þess, að aðalkostnaður vegna viðhalds væri vegna endurbóta á baðherbergi. Með úrskurði dags. 21. janúar 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda með því að athugun á innsendum reikningum hefði leitt í ljós, að hluti reikninga teldist falla undir endurbætur í skilningi 25. gr. reglugerðar nr. 245/1963 og nokkur hluti reikninga tengdist alls ekkí viðhaldi.
Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 19. febrúar 1980, og krefst þess að breytingu skattstjóra verði hrundið. Getur kærandi þess að viðhaldsframkvæmdirnar eigi rætur að rekja til vatnsskaða sem hafi orðið í baðherbergi og skemmt hafi út frá sér. Kostnaðurinn hafi verið aðallega vegna efnis og vinnu sökum þessa tjóns.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 18. mars 1981, aðallega, að kærunni verði vísað frá, þar sem hún sé of seint fram komin, enda sé kærubréf póststimplað 22. janúar 1980, og til vara að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda teljist umræddur kostnaður hafa verið vegna endurbóta og eignarauka.
Í 2. málsl. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, er svo kveðið á um, að kærufrestur skattaðila til ríkisskattanefndar skuli vera 30 dagar frá póstlagningu úrskurðar skattstjóra. Hinn kærði úrskurður er dagsettur 21. janúar 1980, og liggur ekki annað fyrir en hann hafi verið póstlagður þann sama dag. Síðasti dagur kærufrests var því í tilviki kæranda 20. febrúar 1981. Bréf það, er hafði að geyma kæru kæranda til ríkisskattanefndar, dags. 19. febrúar 1980, er póststimplað 20. febrúar 1980, en eigi 22. janúar svo sem ríkisskattstjóri heldur fram. Ekki liggur fyrir hvenær bréfið var afhent á póststöð til sendingar með pósti, en rétt þykir að miða komudag kæru til ríkisskattanefndar við þá afhendingu. Þar eð afhendingardagur liggur þannig ekki fyrir þykir rétt að miða hann við 19. febrúar 1980. Telst kæran því hafa borist ríkisskattanefnd ,19. febrúar 1980. Samkvæmt þessu hefur kæran borist ríkisskattanefnd fyrir lok kærufrests og er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið.
Kærandi færði til frádráttar í skattframtali sínu árið 1979 sem viðhaldskostnað íbúðarhúsnæðis eftirtalda liði: Gler 69 719 kr., v/baðs 189 257 kr. og rafmagn o. fl. 25 531 kr. Hvorki í tilkynningu skattstjóra um hina kærðu breytingu, dags. 13. desember 1979, né í úrskurði skattstjóra, dags. 21. janúar 1980, er nein grein gerð fyrir hinni umdeildu lækkun viðhaldsfrádráttarins og hvað það var í hinum tilfærðu liðum sem ófrádráttarbært taldist að áliti skattstjóra. Til þess ber að líta, að engin athugasemd var gerð við þessa liði þá er álagning fór fram skv. skattskrá 1979 og skattframtalið, að gerðri minniháttar leiðréttingu þá, lagt til grundvallar álagningu. Með tilliti til þess hvernig að framkvæmd hinnar kærðu breytingar var staðið af hálfu skattstjóra þykir bera að fella hana úr gildi.