Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 422/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. gr.   Reglugerð nr. 119/1965, 6. gr.   Lög nr. 14/1965, 8. gr.  

Reiknuð laun — Launaskattsstofn — Málsmeðferð áfátt

Samkvæmt gögnum málsins ráku kærandi og eiginkona hans saumastofu að X-holti 5 á árinu 1978. Eiginkona kæranda reiknaði sér laun að fjárhæð 840 000 kr. fyrir 26 vikna vinnu við stjórnun og módelgerð á nefndri saumastofu. Var þessi fjárhæð gjaldfærð í rekstrarreikningi saumastofunnar og tekjufærð á framtali kæranda 1979. Með ársfjórðungslegum launaskattsskýrslum var staðið skil á launaskatti af nefndum launum eiginkonunnar ásamt öðrum gjaldfærðum launum skv. rekstrarreikningi stofunnar árið 1978.

Við mat á launum eiginkonu kæranda fyrir störf hennar á áðurnefndri saumastofu virðist skattstjóri hafa gengið út frá fjárhæðinni 2 914 000 kr. og því gert kæranda að greiða viðbótarlaunaskatt af 2 074 000 kr. Af hálfu ríkisskattstjóra er gerð svofelld krafa í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda með bréfi dags. 24. mars 1981:

„Kærandi hefur á launamiða reiknað konunni 840 000 gkr. í laun en tap er jafnframt 668 262 gkr. Þessu er breytt og hagnaður af rekstri, 155 737 gkr., er færður á framtal.

Skattstjóri áætlaði launaskatt skv. 6. gr. launaskattslaga nr. 119/1965 og verður ekki séð að ástæða sé til breytinga á þeirri áætlun.“

Skattstjóri gerði kæranda að greiða launaskatt af launafjárhæð miðað við heils dags starf eiginkonu kæranda á nefndri saumastofu þrátt fyrir að störf hennar þar væru á launamiðafylgiskjali í janúar 1979 talin til hálfs dags starfs eða 26 vikna. Þetta gerði skattstjóri án þess að hafa áður tilkynnt kæranda um þessa fyrirætlun sína og gefið honum kost á að gæta réttar síns í því sambandi.

Þessi málsmeðferð skattstjóra þykir vera andstæð 4. málsl. 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/ 1971 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laga nr. 14/1965 um launaskatt. Þegar af þeirri ástæðu þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja