Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 427/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 2. tl. A-liðar 30. gr., 1. mgr. 100. gr., 96. gr.
Fargjöld — Kærufrestur — Komudagur kæru — Sjómaður — Málsmeðferð áfátt — Matsreglur ríkisskattstjóra — Leiðbeiningar ríkisskattstjóra
Málavextir eru þeir að kærandi taldi fram til skatts í framtalsfresti fyrir álagningu gjalda árið 1980. Var framtalið lagt til grundvallar við ákvörðun gjalda með þeirri breytingu að ferðakostnaður að fjárhæð 244 540 kr. var þurrkaður út sem frádráttarliður við ákvörðun tekjuskattsstofns. Breytinguna virðist skattstjóri hafa tilkynnt kæranda fyrir álagninguna, en ódagsett afrit af tilkynningu um það er meðal gagna málsins. í athugasemdardálki á framtalinu gerði kærandi þá grein fyrir þessum lið að um væri að ræða fargjöld vegna langferða á milli heimilis og vinnustaðar, þ. e. greidd fargjöld til og frá Vestmannaeyjum. Af hálfu kæranda voru breytingar þær sem skattstjóri hefur gert á framtali kæranda 1980 kærðar til hans með kæru dags. 29. ágúst 1980. Var þar boðað að rökstuðningur yrði sendur síðar. Með úrskurði dags. 24. október 1980 synjaði skattstjóri kærunni þar sem rökstuðningur væri ekki tilgreindur.
Af hálfu kæranda var með bréfi til skattstjóra dags. 24. nóvember 1980 mótmælt útstrikun á frádráttarliðnum ferðakostnaður, 244 540 kr. Er þess getið að kærandi væri skipverji á vélbáti sem gerður er út frá Vestmannaeyjum. Er á það bent að „skv. 30. gr. laga nr. 7/1980 A-liður 2. mgr. er skattþegn heimilt að draga frá tekjum fargjöld vegna langferða á milli heimilis og vinnustaðar.“ Kærandi hafi á árinu 1979 greitt nefnda fjárhæð í fargjöld á milli heimilis og vinnustaðar, sem nú væri óskað eftir að fá til frádráttar.
Með bréfi dags. 22. desember 1980 tilkynnti skattstjóri umboðsmanni kæranda að framangreint bréf hans frá 24. nóvember 1980 hafi verið framsent ríkisskattanefnd. Ríkisskattanefnd barst umrætt bréf og afrit af bréfum til umboðsmanns kæranda í bréfi póststimpluðu með dagsetningunni 22. desember 1980, og er skráð móttekið þann dag.
Í bréfi dags. 1. apríl 1981 gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur.
„Kæran, sem er skráð móttekin hjá ríkisskattanefnd þ. 24. 12. 1980 (sic) virðist of seint fram færð sbr. 100. gr. laga nr. 40/1978. Er því gerð krafa um frávísun kæruefnisins frá ríkisskattanefnd.“
Eigi liggur fyrir hvenær skattstjóra barst bréf umboðsmanns kæranda frá 24. nóvember 1980, en rétt þykir að miða komudag kærunnar til ríkisskattanefndar við sama dag og hún kom til skattstjóra. Að því virtu þykir rétt að taka kæruna til meðferðar.
Í 2. U. A-liðs 1. mgr. 30, gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að frá tekjum manna, sem ekki séu tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, megi draga
fargjöld vegna ferða á vegum atvinnurekenda og vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra. Á grundvelli þessarar lagaheimildar gaf ríkisskattstjóri út vegna gjaldársins 1980 svofelldar matsreglur um frádrátt fargjalda vegna langferða milli heimilis og vinnustaðar:
„Launþegar, sem stunda atvinnu sína í a. m. k. 25 kílómetra fjarlægð frá heimili sínu og þurfa dag hvern að fara milli heimilis og vinnustaðar, mega draga frá tekjum sínum greidd fargjöld dag hvern með áætlunarbifreiðum, eða samsvarandi fjárhæð sé notað annað flutningstæki, enda sé sá flutningskostnaður sem vinnuveitandi kann að hafa endurgreitt launþega talinn að fullu til tekna. Á sama hátt skulu þeir launþegar sem hafa húsnæðisaðstöðu á vinnustað á vegum vinnuveitanda njóta frádráttar frá tekjum vegna greiddra fargjalda í samræmi við tilhögun vinnu á hverjum stað, þó eigi hærri fjárhæð en svarar til einnar ferðar fram og til baka með áætlunarbifreið fyrir hverja unna viku.
Launþegi sem starfar fjarri heimili sínu óslitið í a. m. k. 3 mánuði að jafnaði, má draga frá tekjum sínum fargjald fram og til baka með áætlunarbifreið, eða samsvarandi fjárhæð sé annað farartæki notað, enda sé fjarlægð milli heimilis og vinnustaðar a. m. k. 100 km.“
Matsreglur þessar birti ríkisskattstjóri í Leiðbeiningum við útfyllingu skattframtals einstaklinga árið 1980.
Kærandi, sem á heimili sitt í Reykjavík, vann mest allt árið 1979 sem skipverji á bát, sem gerður var út frá Vestmannaeyjum. Þykir hann eiga að njóta heimilda þeirrar til frádráttar á ferðakostnaði milli heimilis og vinnustaðar, sem nefndar hafa verið, svo sem hann fer fram á. Ekki er í máli þessu deilt um fjárhæð þá, er kærandi færði sem ferðakostnað til frádráttar á skattframtali sínu 1980. Þá gætti skattstjóri eigi reglna 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, ef hann vildi vefengja réttmæti frádráttarliðarins. Að virtum framangreindum atriðum er fallist á kröfur kæranda.