Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 428/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 98. gr., 99. gr., 100. gr.
Framtalsfrestur — Áætlun — Kærufrestur — Kæruúrskurður — Kæra — Auglýsing skattstjóra — Lögbirtingablað — Skattframtal — Framsending ríkisskattstjóra — Framsending ríkisskattanefndar — Málsmeðferð áfátt — Ómerking kæruúrskurðar
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980 og þess krafist að innsent skattframtal ásamt fylgigögnum verði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra áður.
Málavextir sem hér skipta máli eru þeir að með bréfi dags. 14. ágúst 1980 tilkynnti umboðsmaður kæranda skattstjóra að sér hefði verið falið „Að senda inn bráðabirgðaframtal fyrir árið 1980 með þeim upplýsingum, sem fyrir liggja.“ Gat umboðsmaðurinn þess að af óviðráðanlegum orsökum hafi ekki tekist að ljúka uppgjöri fyrir rekstrarárið 1979, en fyrirsjáanlegt sé að verulegt tap hafi verið á rekstrinum. Var tap áætlað 9 000 000 kr., aðstöðugjaldsstofn 119 000 000 kr. og eignarskattsstofn 300 000 000 kr., en stofn til launaskatts sagður vera 82 898 875 kr. Við álagningu gjalda gjaldárið 1980 byggði skattstjóri ekki á framtali þessu, heldur áætlaði kæranda stofn til tekjuskatts 2 500 000 kr., stofn til eignarskatts 375 000 000 kr. og stofn til aðstöðugjalds 160 000 000 kr. Voru gjöld ákvörðun í samræmi við það.
Með auglýsingu, dags. sunnudaginn 31. ágúst 1980, birtri í Lögbirtingablaði því sem út kom 10. september s. á., tilkynnti skattstjóri að álagningu opinberra gjalda á árinu 1980 væri lokið í umdæmi sínu á þá lögaðila, sem skattskyldir væru hér á landi skv. 2. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt. Gat hann þess að kærur vegna álagningarinnar þurfi að hafa borist skattstjóra eða umboðsmanni hans innan 30 daga frá og með dagsetningu nefndrar auglýsingar.
Þann 30. september 1980 móttók skattstjóri skattframtal kæranda árið 1980 ásamt fylgigögnum og kvað hér vera um kæru að ræða yfir álögðum áætluðum opinberum gjöldum 1980. Þann 22. október 1980 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð og vísaði kæru kæranda frá. Segir svo í forsendum þessa úrskurðar:
„Um kærur til skattstjóra er fjallað í 99. gr. laga nr. 40/1978, sbr. a og b lið 45. gr. laga nr. 7/1980. Þar segir í 1. málslið 1. mgr.: „Nú telur skattaðili skatt sinn eða skattstofna þar með talin rekstrartöp, eigi rétt ákveðinn og getur hann þá sent skriflega rokstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til skattstjóra eða umboðsmanns hans, innan 30 daga frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu skv. 1. mgr. 98. gr. sé lokið eða innan 30 daga frá og með póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun.“
Auglýsing skattstjóra um lok álagningar á lögaðila, sem skattskyldir eru skv. 2. mgr. laga nr. 40/1978 var birt hinn 31. ágúst 1980.
Kæra félagsins, dags. 30. september 1980, og móttekin hér á skattstofunni sama dag er því of seint send og ber að vísa henni frá.“
Með bréfi dags. 14. nóvember 1980 sendi umboðsmaður kæranda ríkisskattstjóra erindi og fór fram á að hann hlutaðist til um að kærandi fengi úrskurðaða álagningu opinberra gjalda á grundvelli innsends skattframtals. Taldi umboðsmaðurinn að hann hefði eigi kært til skattstjóra, þar sem hann hefði misskilið tímalengd kærufrests og sá misskilningur stafi af breyttu orðalagi nýrra skattalaga.
Með bréfi dags. 17. nóvember 1980 framsendi ríkisskattstjóri ríkisskattanefnd nefnt bréf umboðsmanns kæranda frá 14. nóvember 1980. í því bréfi segir ríkisskattstjóri m. a.: „kæran varðar úrskurð skattstjóra, dagsettan 22. október 1980, og er hún því fram komin í kærufresti til ríkisskattanefndar sbr. 100. gr. skattalaganna. Ríkisskattstjóri er því ekki bær aðili til að úrskurða málið.“ Með bréfi dags. 25. febrúar 1981 skilaði ríkisskattstjóri kröfugerð í málinu. Segir m. a. í þeirri kröfugerð: „í tilefni af kæru ofangreinds aðila til ríkisskattanefndar, dags. 14. 11. 1980, en mótt. af ríkisskattstjóra frá ríkisskattanefnd .25. 11. 1980, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur f. h. gjaldkrefjanda: að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Skattstjóra barst bréf umboðsmanns kæranda þann 14. ágúst 1980 eða eftir að framtalsfresti lauk en áður en álagningu var lokið. Var því rétt eins og hér stóð á að taka það bréf sem skattkæru, sem rökstudd var með skattframtali kæranda er skattstjóra barst þann 30; september 1980. Á sú meðferð stoð í 2. ml. 1. mgr., 99. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, en skattstjóri hefur ekki svo séð verði tekið neina afstöðu til nefnds bréfs. Samkvæmt þessari niðurstöðu er hinn kærði úrskurður skattstjóra ómerktur.
Eins og atvikum máls þessa er háttað þykir rétt að framsenda skattstjóra kæruna til ríkisskattanefndar til meðferðar, sbr. 8. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeirri grein var breytt.með 25. gr. laga nr. 25/1981.