Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 435/1981
Gjaldár 1979
Reglugerð nr. 245/1963, 3. mgr. 53. gr. Lög nr. 68/1971, 7. gr., A-liður 11. gr., A-liður 12. gr., 19. gr.
Ábyrgðarskuldbinding — Vaxtagjöld — Gjaldþrot — Sönnun — Skuldfærsla — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Einkanot — Sératkvæði
I.
Málavextir, sem hér skipta máli, eru þeir að kærandi taldi fram til skatts gjaldárið 1979 og skilaði skattstjóra í veittum viðbótarframtalsfresti undirrituðu og staðfestu skattframtali vegna þess árs. Á framtalið hafði kærandi tilfært sem skuld við X-banka Íslands 8 410 500 kr. og vaxtagjöld af henni 1 600 500 kr. í fjárhæðum þessum eru reiknaðir áfallnir ógreiddir vextir. í athugasemdardálk framtalsins hefur kærandi skráð svofellda skýringu: „Vegna persónulegra ábyrgða er ég tók á mig sem hluthafi í S gjaldféll á mig á árinu hjá X-banka Íslands 8 050 000 kr. að viðbættum vöxtum.“ Þá færði kærandi sér til tekna fengna bifreiðastyrki alls að fjárhæð 1 490 365 kr. frá þremur tilgreindum vinnuveitendum sínum. Til frádráttar þeim tekjum færði kærandi sömu fjárhæð og studdi það með útfyllingu sérstakrar skýrslu um rekstur bifreiðar sinnar á árinu 1978.
Þann 1. júní 1979 sendi skattstjóri kæranda svohljóðandi bréf:
„Leggið fram Öll gögn varðandi persónulega ábyrgð yðar við X-banka Íslands vegna S hf. og gerið grein fyrir hversvegna þér færið yður til skuldar 7 050 000 kr. við X-banka Íslands. Kvittanir vegna vaxtagjalda óskast sendar.
Ítarleg greinargerð vinnuveitanda um ástæður fyrir greiðslu bifreiðastyrks, þar sem skýrt komi fram í hverju svo mikill akstur í hans þágu er fólginn óskast send.“
Þann 20. júlí 1979 hafði skattstjóra ekki borist svar frá kæranda og var honum þá tilkynnt um eftirtaldar breytingar á skattframtali hans árið 1979: Skuld við X-banka Íslands felld niður ásamt vaxtagjöldum. Frádráttur á móti greiddum bifreiðastyrk lækkaður um 890 365 kr. eða í 600 000 kr. Ástæður þessara breytinga kvað skattstjóri vera þær að bréfi hans frá 1. júní hefði ekki verið svarað. Var framtalið þannig breytt lagt til grundvallar við ákvörðun gjalda það ár. Kærandi kærði gjaldaákvörðunina til skattstjóra með kæru dags. 2. ágúst 1979 og boðaði í henni að frekari gögn og rökstuðningur yrði sendur síðar. Þann 11. september 1979 kvað skattstjóri upp kæruúrskurð í tilefni af kæru kæranda. Úrskurðaði hann að álögð gjöld skyldu standa óbreytt þar sem rökstuðningur fyrir kæruatriðum hefði ekki borist.
II.
Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru dags. 28. september 1979. Greinargerð fyrir kæruatriðum ásamt gögnum barst ríkisskattanefnd í bréfi dags. 10. apríl 1980. Segir þar m. a.:
„Í framhaldi af bráðabirgðakæru dags. 28. sept. 1979, vegna þessa umbj. míns eru hér með lögð fram meðfylgjandi gögn til rökstuðnings kærunni. Farið er fram á endurálagningu gjalda.
a) Bréf F til X-banka Íslands varðandi staðfestingu á skuldastöðu hans vegna persónulegra ábyrgða.
b) Yfirlýsing Undirbúningsfélags S á Reykjanesi hf. vegna greiðslu fyrir bifreiðaafnot. Yfirlýsing H Suðurnesja vegna greiðslu fyrir bifreiðaafnot.
Með tilvísun til ofangreindrar staðfestingar Lögfræðingadeildar X-bankans, óskast skuld umbj. míns við bankann leiðrétt en höfuðstóll hennar er 12 452 000 kr. en ekki 7 050 000 kr. Stafar skekkja þessi að sögn umbj. míns, að hann hafi þurft að áætla töluna þar sem ekki lá fyrir skrifleg krafa bankans við gerð framtals.
Þá er ljóst að áætlaðir ógr. vextir af skuldinni eru of lágir, þar sem ógreiddir eru vextir og dráttarvextir fyrir allt árið 1978 af 5 202 000 kr. höfuðstól. Ekki treystir umbj. minn sér að áætla þessa vexti nákvæmlega, þar sem hann hefur enn ekki fengið í hendur önnur gögn frá bankanum en meðfylgjandi bréf, sem hann hefur sjálfur skrifað og byggt á munnlegum upplýsingum lögfræðings bankans.
Varðandi fenginn bifreiðastyrk frá dvalarheimilinu G vill umbj. minn taka fram að hann annast launaútreikninga og stjórnsýslu fyrir heimilið og þarf í því sambandi að fara í bankastofnanir í K svo og til Reykjavíkur vegna viðskipta heimilisins við opinberar stofnanir s. s. Tryggingastofnun ríkisins o. fl.“
III.
Af hálfu ríkisskattstjóra hefur í bréfi dags. 15. desember 1980 verið gerðar svofelldar kröfur:
„1. Varðandi ábyrgðir fyrir S er krafist frávísunar þar sem ekki liggur fyrir hvaða ábyrgðir falla endanlega á kæranda. Engin gögn hafa verið lögð fram um að gjaldþrotaskiptum sé lokið og til þess komi að kærandi verði að greiða skuldir þær sem tilgreindar eru í yfirlýsingu X-bankans. Þegar það liggur fyrir er fyrst hægt að líta á skuldirnar sem tilheyrandi kæranda.
2. Akstur kæranda er með ólkindum mikill. Sé gert ráð fyrir 48 vinnuvikum er akstur í þágu vinnuveitanda talinn liðlega 800 km á hverri viku. Það svarar til ferðar til Reykjavíkur hvern einasta virkan dag, a. m. k. t.d. 20 km aksturs þar í hverri ferð. Þá eru eftir 200 km á viku í bankasnúninga og ferða milli Keflavíkur og verksmiðju. Af yfirlýsingu vinnuveitanda verður ekki ráðið að akstur sé jafn mikill og kærandi tilgreinir og engar upplýsingar liggja fyrir frá G.
Með hliðsjón af framansögðu getur ríkisskattstjóri ekki fallist á að til frádráttar tilgreindum bílastyrk komi hærri upphæð en 1 000 000 kr.“
IV.
Með bréfi ríkisskattanefndar dags, 10. febrúar 1981 var kæranda veitt færi á að tjá sig um þau atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra sem hann teldi ástæðu til. Gerði hann það með bréfi dags. 12. febrúar 1981. Segir í því bréfi:
„Gjaldþrotaskiptum S hf. lauk hjá skiptaráðanda hinn 16, maí 1979 sbr. meðf. ljósrit af auglýsingu í Lögbirtingablaðinu 6. júní 1979. Skv. upplýsingum F mun X-bankinn ekki hafa gert kröfur á þrotabúið heldur höfðað mál á hendur honum þar sem hann var persónulega í ábyrgð fyrir tilteknum skuldum S við bankann. Á síðastliðnu sumri þann 21. júlí, gerði F upp við bankann skuldir skv. A. og B. lið staðfestingarbréfs er fylgdi kæru. Hjálagt fylgir ljósrit af kvittun bankans fyrir keyptu skuldabréfi og af dómi vegna kröfu bankans. Þá fylgir ennfremur ljósrit af bréfi X-bankans í K, dags. 10. febrúar 1981, vegna skuldar skv. C-lið staðfestingarbréfs, sem enn er óuppgerð.
Varðandi akstur í þágu vinnuveitenda, þá ítrekar umbj. minn fyrri kröfur. Í kröfugerð ríkisskattstjóra kemur fram að það þyki með ólíkindum mikill akstur að þurfa að fara að meðaltali eina ferð til Reykjavíkur hvern vinnudag en umbj. minn bendir á að suma daga þurfi að fara tvær. Ennfremur sé það villandi að setja dæmið upp eins og fram kemur í kröfugerðinni því vikulegur akstur í bankasnúninga og ferðir milli K og verksmiðju, milli K og G o. fl. sé allt að helmingi meiri en þeir 200 km sem afgangs urðu í útreikningi ríkisskattstjóra.“
V.
Atkvœði meirihluta.
V.1. Með vísun til ákvæða 3. mgr. 53. gr. reglugerðar nr. 245/1963 um tekjuskatt og eignarskatt er fallist á fyrri hlutann í kröfum kæranda þar sem þar greindum skilyrðum til skuldafærslu umræddrar ábyrgðarskuldar pr. 21/12 1978 var fullnægt, en aðalskuldarinn var þá orðinn gjaldþrota. Er fallist á að miða við það að höfuðstóll skuldarinnar þann dag hafi numið 12 452 000 kr. eins og kærandi getur um í kæru sinni til ríkisskattanefndar. Hins vegar er eigi fallist á að breyta upphaflegri vaxtagjaldfærslu á skattframtali kæranda árið 1979 af skuld þessari, þar sem kærandi gerir ekki tölulega grein fyrir kröfu um breytingar á henni.
V.2. Með kæru til ríkisskattanefndar voru lagðar fram yfirlýsingar frá þeim aðilum er greiddu kæranda bifreiðastyrk. Ekki liggur fyrir að aksturskostnaður samkvæmt bifreiðaskýrslu hafi verið vefengdur af hálfu skattstjóra. Þegar þetta er virt virðist skipting á milli aksturs í þágu vinnuveitanda og til einkanota geta staðist. Er krafa kæranda því tekin til greina.
Atkvœði minnihluta.
Ég er samþykkur áliti meirihluta varðandi fyrra kæruatriðið, en um hið síðara er úrskurðarorð mitt svohljóðandi: Að virtum gögnum málsins þykir mega hækka frádrátt vegna greidds bifreiðastyrks úr 600 000 kr. í 1 000 000 kr.