Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 456/1981

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Skattlagning varasjóðs — Varasjóður — Skattskyld ráðstöfun varasjóðs — Óeðlileg viðskipti — Söluverð fasteignar

Kærð er sú breyting á skattframtali kæranda árið 1978 að skattleggja varasjóð að fjárhæð 8 289 600 kr. vegna sölu X-18 í Reykjavík til S hf. þann 30. desember 1977 auk 20% viðurlaga, 1 657 920 kr. Nefnda eign hafði kærandi keypt með kaupsamningi, dags. 16. júní 1976, fyrir 18 000 000 kr. í bréfi sínu til skattstjóra, dags. 15. mars 1979, kveður kærandi að S hf. hafi verið stofnað af kæranda og hluthöfum þess til yfirtöku á þessum kaupsamningi vegna X-18. Hafi þessi yfirtaka verið búin að vera á dagskrá allt árið 1977, þótt endanlega hafi ekki verið gengið frá málinu fyrr en í lok ársins. í kæru til skattstjóra gerir kærandi enn frekari grein fyrir málsástæðum sínum og segir m. a. í því bréfi:

„Mótmælt er skattlagningu varasjóðs, vegna sölu á eignarhluta ofanritaðs í X-18 til S h/f og með tilliti til eftirfarandi: 1. Söluverð eignarinnar er ekki óeðlilegt þegar tekið er tillit til eftirtalinna atriða:

a) Ákvörðun um stofnun félags til yfirtöku eignarinnar er mun eldri en dagsetning endanlegs kaupsamnings gefur til kynna og er í því sambandi vísað til meðfylgjandi ljósrits úr fundargerðarbók H h/f dags. 16/10 1976.

b) Ákvörðun um stofnun S h/f til yfirtöku eignarinnar er í fullu samræmi við samþykktir H h/f, þar sem fasteignarekstur samrýmist ekki tilgangi félagsins.

c) S h/f greiðir kaupverð upp á mun skemmri tíma en H h/f gerði: Sjá samanburðinn á kaupsamningum:

Kaupverð H h/f Kaupverð S h/f
Við samningsgerð ...kr. 3 000 000 Við samningsgerð .. . kr. 11 875 000
Eftir 4 mánuði kr. 2 000 000 þar af yfirtekið
Eftir 6 mánuði kr. 2 000 000 vaxtaaukalán til
Eftir 9 mánuði kr. 2 000 000 3ja ára m. 33%
Eftir 11 mánuði .... kr. 2 000 000 vöxtum.
Skuldabréf til 8 ára Skuldabréf til 7 ára
m. 14% vöxtum kr. 7 000 000 m. 14% vöxtum kr. 6 125 000

Kr. 18 000 000 Kr. 18 000 000

Það er ljóst að hagur H h/f af hærri útborgun en lægra söluverði er ótvíræður, m. a. vegna skattskyldu söluhagnaðar.

d) H h/f hirti arð af eigninni í eitt ár ca. 1 500 000 kr., þ. e. útleiga kr. 1 000 000, eigin notkun ca. 500 000 kr.

e) H h/f er eigandi að 40% hlutafjár í S h/f.

f) Byggingarvísitala er ekki réttur mælikvarði á söluverð eldra húsnæðis, sem ræðst af allt öðrum lögmálum.

2. Ekki verður séð, að H h/f sé að veita S h/f nokkur fríðindi með sölu fyrrnefndrar eignar.“

Með kæruúrskurði uppkveðnum 16. nóvember 1979 synjaði skattstjóri kröfum kæranda með svofelldum rökum:

„S hf. er stofnað þ. 28/12 1977 þ. e. um það bil IV2 ári eftir dagsetningu kaupsamnings H hf. á eignarhluta í X-Í8.

Viðkomandi hlutafélög eru sjálfstæðir skattaðilar með mismunandi samþykktir og tilgang og því er um óskylda aðila að ræða í þessu sambandi. Hugmyndir skv. fundargerðarbókum H hf. dags. 6/10 1976 varðandi athugun á aðild að stofnun nýs félags skipta hér ekki máli.

Skattstofan álítur að umrædd viðskipti brjóti í bága við 9. gr. skattalaganna, þar sem sala umræddrar eignar á upphaflegu kostnaðarverði í ljósi eignarhaldstíma geti vart talist eðlileg, enda frábrugðin því sem almennt gerist í slíkum viðskiptum. Eðlilegt þykir, að taka mið af hækkun byggingarvísitölu við mat á auknu verðgildi húseignarinnar, ekki síst v/ staðsetningar hennar. Verðmætaaukning miðað við ofangreinda viðmiðun nemur rúmum 12 milljónum króna.

Varasjóður félagsins kr. 8 289 600 er því skattskyldur með 20% viðurlögum 1 657 970 kr.“

Í kæru umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar kemur fram svofelld kröfugerð:

„Forsaga þessa máls er sú að 16. júní 1976 var gengið frá kaupsamningi vegna X-18, þar sem H h/f keypti 10,4% af eigninni fyrir 18 000 000 kr. Kaupsamningur þessi var þann 30. desember 1977 framseldur S h/f.

Skattstjórinn í Reykjavík telur, að sala þessi brjóti í bága við 9. gr. skattalagana skv. fyrrnefndum úrskurði, og samkvæmt munnlegum upplýsingum nánar tiltekið C-lið 9. gr. og jafnvel einnig B-lið sömu greinar.

Umbjóðandi minn telur að rökstuðningur skattstjóra geti ekki staðist og bendir á, að ekki sé hægt að skilja C-lið 9. gr. öðruvísi en svo, að hún eigi eingöngu (sic) við um kaup á eignum, en ekki sölu.

Einnig er útilokað að sjá, að B-liður 9. greinar geti átt við í þessu tilfelli, en þar er eingöngu fjallað um fríðindi umfram venjulegar launagreiðslur og arðúthlutun til handa hluthöfum, stjórnendum og öðrum starfsmönnum.

Með tilliti til framanritaðs telur umbjóðandi minn að sala fyrrnefndrar eignar geti ekki talist ráðstöfun á varasjóði, jafnvel þó svo að söluverð væri óeðlilegt, sem hann telur ekki vera og vísar í því sambandi til rökstuðnings í kæru til skattstjóra.

Er því farið fram á, að fyrrnefnd teknaviðbót verði felld niður og gjöld lækkuð til samræmis.“

Í bréfi dags. 12. maí 1981 krefst ríkisskattstjóri þess að „úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Eigi verður séð að umrædd viðskipti feli í sér skattskylda ráðstöfun á varasjóði skv. 9. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Krafa kæranda er því tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja