Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 462/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971, 37. gr., 38. gr.  

Tortryggilegt skattframtal — Einkanot — Tilkynning verðlagsstjóra — Leigubifreiðarstjóri — Vanreifun — Frávísun — Sönnun — Leigubifreiðaakstur — Endurákvörðun skattstjóra — Lögbirtingablað — Verðlagsstjóri

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1979 í framtalsfresti það ár. Var skattframtalið óbreytt lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda skv. skattskrá árið 1979. Með bréfi dags. 19. nóvember 1979 krafði skattstjóri kæranda skýringa varðandi heildarakstur leigubifreiðar hans á árinu 1978, áætluð einkanot svo og áætlaða meðaleldsneytiseyðslu bifreiðarinnar. Svar skyldi hafa borist innan 7 daga.

Með bréfi dags. 5. desember 1979 svaraði umboðsmaður kæranda hinum umspurðu atriðum. Var heildarakstur talinn 25.000 km og meðaleldsneytiseyðsla u. þ. b. 8 — 10 lítrar á 100 km. Þá var þess getið, að ekki hafi verið um einkanot að ræða af leigubifreiðinni. Skattstjóri tilkynnti kæranda því næst, að skattframtali hans árið 1979 hefði verið breytt og tekjur hækkaðar um 140 000 kr. vegna einkanota af leigubifreið. Með skattbreytingaseðli dags. 27. desember 1979, tilkynnti skattstjóri kæranda um þá hækkun áður álagðra opinberra gjalda er af fyrrnefndri tekjuhækkun leiddi.

Umboðsmaður kæranda kærði þessa breytingu til skattstjóra með bréfi dags. 5. janúar 1980 og mótmælti því að um nokkur einkanot hefði verið að ræða.

Með úrskurði dags. 6. febrúar 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda á þeim forsendum að kærandi hefði tvímælalaust þau hlunnindi að aka til og frá vinnu. Utan vinnutíma stæði bifreiðin við heimili hans og mætti líklegt telja að gripið væri til hennar öðru hverju. Einkaafnotin hefðu verið metin sem svaraði til 2.000 — 3.000 km aksturs í eigin þágu.

Þessi úrskurður hefur umboðsmaður kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 12. febrúar 1980, og þess krafist að tekjuviðbót skattstjóra verði felld niður. Því er mótmælt að um einkanot geti verið að ræða vegna aksturs úr og í vinnu, enda sé bifreiðin vinnustaðurinn. Þá er öðrum einkanotum mótmælt sem alveg órökstuddum.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru svofelldar kröfur gerðar í málinu með bréfi dags. 6. apríl 1981:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Telja verður næsta öruggt að kærandi noti bifreið sína til eigin þarfa. Mati skattstjóra á þeim hluta rekstrarkostnaðar bifreiðarinnar sem til þeirra hefur verið varið á árinu 1978 virðist í hóf stillt.“

Samkvæmt rekstrarreikningi kæranda fyrir árið 1978 nam gjaldfærð brennsluolía 237 940 kr. í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 5. desember 1979, kemur fram að heildarakstur bifreiðar kæranda er talinn hafa verið um 25.000 km og meðaleldsneytiseyðsla u. þ. b. 8 — 10 lítrar. Kærandi kaupir umrædda bifreið 8. mars 1978 skv. tilgreiningu í skattframtali. Þegar litið er til vegins meðaltalsverðs dísilolíu á tímabilinu 4. mars 1978—31. desember 1978, þ. e. verð á bifreiðar frá dælu, sbr. tilkynningar verðlagsstjóra nr. 12, dags. 3. 3. 1978, nr. 31., dags. 21. 7. 1978, nr. 37.,dags. 19.9. 1978 og nr. 53, dags. 12. 12. 1978, er birtust í Lögbirtingablaði, og nemur 61,50 kr. á lítra, verður eigi annað séð en gjaldfærð eldsneytiskaup hefðu hrokkið til langtum meiri aksturs en umboðsmaður kæranda greinir eða miðað við 10 lítra eyðslu á 100 km, þ. e. efra mark tilgreindrar eyðslu, til u. þ, b. 38 690 km aksturs. Hér þykir vera það mikið misræmi, að framtalsgögn kæranda eða síðari upplýsingar umboðsmanns fái eigi staðist án sérstakra skýringa. Að svo komnu þykir bera að vísa þessu kærumáli frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja