Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 467/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 69. gr.
Barnabætur — Lögheimili
Kærð er synjun skattstjóra á barnabótum til handa kærendum gjaldárið 1980 vegna þriggja barna þeirra.
Ríkisskattstjóri hefur í bréfi dags. 2. apríl 1981 gert svofelldar kröfur:
„Kærandi sem hélt lögheimili sínu á Íslandi allt árið 1979 þrátt fyrir störf og nám í Bandaríkjunum, telst bera fulla og ótakmarkaða skattskyldu hér á landi vegna tekna á því ári og eigna í árslok 1979.
Eigi að síður hefur kærandi enga grein gert fyrir tekjum erlendis vegna starfs þar. Skattstjóra hefur láðst að áætla tekjuskattsstofn vegna þessara tekna. Af kæranda hálfu liggur og ekkert fyrir um að hann fái ekki barnabætur eða hliðstæðar greiðslur erlendis.
Með vísan til þessa er gerð krafa um frávísun kærunnar.“
Með vísan til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 1416 frá árinu 1979 og 69. gr. laga nr. 40/ 1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, er fallist á kröfur kærenda.