Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 471/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 7. gr., 31. gr.  

Sjálfstæð starfsemi — Læknir — Vanreifun — Frávísun — Gæsluvaktarþóknun — Bifreiðakostnaður — Bakvaktir — Gæsluvaktir

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda 1980 að leyfa ekki til frádráttar tekjum bifreiðakostnað þann, er kærandi hafði tilfært þar til frádráttar tekjum sínum á árinu 1979. Ekki verður það ráðið af kærunni til ríkisskattanefndar að kærð séu önnur atriði er um getur í hinum kærða úrskurði.

Til skýringa á nefndum lið í skattframtali sínu, lét kærandi fylgja yfirlit yfir rekstrarkostnað vegna bifreiðar sinnar á árinu 1979, og nam hann alls 1 591 510 kr. að meðtöldum afskriftum. Sú skýring fylgir, að af heildarakstri sé um 60% í beinum tengslum við bakvaktastörf á tveimur sjúkrahúsum í Reykjavík, og teljist því kostnaður kæranda vegna þessa 954 906 kr. Er það sú fjárhæð sem kærandi hefur tilfært í framtali sínu.

Með bréfi dags. 25. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri að kostnaður þessi hefði verið felldur niður úr framtalinu, þar sem litið væri svo á, að heimild til þessa frádráttar væri ekki fyrir hendi.

Í kæru sinni til skattstjóra, dags. 8. ágúst 1980, mótmælti kærandi útstrikun þessari og gerir þar svofellda grein fyrir þeirri kröfu sinni:

„Vísað er til bókunar ríkisskattanefndar frá 13.3. 1969 um bifreiðafrádrátt lækna.

Læknafélag Íslands hefur sent erindi til ríkisskattstjóra og fjármálaráðherra m. a. með rökstuðningi fyrir því að bifreiðakostnaður sjúkrahúslækna verði áfram heimilaður til frádráttar tekjum. Svars er að vænta bráðlega. Sjúkrahúslæknar hafa einir starfsstétta á spítölum ekki rétt til að fá endurgreiddan leigubifreiðakostnað vegna útkalla á vöktum. Á það skal sérstaklega bent að 49,5% tekna minna frá ríkissjóði og 25% tekna frá Reykjavíkurborg eru fyrir gæsluvaktir og yfirvinnu á þeim, sem ekki væri hægt að sinna án eigin bifreiðar, nema öryggi sjúklinga væri stórlega skert. Þá er þess einnig að geta, að ég vinn daglega bæði á X-spítala og C-spítala og þarf stundum oft á dag að fara á milli þessara stofnana.

Greiðsla frá A-spítala er vegna 8 ferða þangað á eigin bifreið.“

Lét kærandi fylgja kærunni rekstraryfirlit fólksbifreiðar í því formi sem ríkisskattstjóri hefur ákveðið. Nemur heildarkostnaður þar 1 758 340 kr. og er mismunarfjárhæð sögð stafa af breytingum á fyrningum frá áður sendu yfirliti.

Með úrskurði dags. 19, nóvember 1980 féllst skattstjóri ekki á þá kröfu kæranda, að 1 042 320 kr. yrðu heimilaðar til frádráttar sem bifreiðakostnaður, þar sem ekki væru heimildir í skattalögum fyrir því.

Í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi frekari grein fyrir kröfu sinni og segir þar m. a.:

„Rétt er að ítreka, að gæsluvaktaskyldu læknis á sjúkrahúsum verður ekki sinnt með því að treysta á almenningsvagna eða leigubifreið. Sérstaða kjarasamninga sjúkrahúslækna síðan þeir gengu úr BSRB 1966 byggist í og með á því að verið er að endurgreiða lækninum fyrir óhjákvæmilegan kostnað við öflun tekna svo sem fyrir bifreið og viðhaldsmenntun. Þá má benda á að ræki undirritaður lækningastofu væri enginn ágreiningur um réttmæti bifreiðafrádráttar til skatts. Virðist hér vera um hróplegt misrétti að ræða þar sem ljóst er að bifreið er ekki síður nauðsynleg til að sinna bakvaktarskyldu á sjúkrahúsum en við rekstur lækningastofu.“

Ríkisskattstjóri krefst þess í bréfi dags. 1. apríl 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur, enda sé ekki í skattalögum að finna heimild til að færa umkrafða kostnaðarþætti til frádráttar.

Í skattframtali sínu tilfærir kærandi sem laun frá eftirtöldum aðilum: Ríkisféhirði, borgarsjóði Reykjavíkur, X-skóla Íslands, ýmsum sjúkrasamlögum og A-spítala. Ljóst þykir, að tekjur þær er kærandi hefur tilgreint frá ýmsum sjúkrasamlögum og A-spítala, séu tekjur af sjálfstæðri starfsemi hans í skilningi B-liðs 7. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Til frádráttar þeim tekjum er heimilt að draga útgjöld þau sem um getur í 31. gr. sömu laga, þ. m. t. rekstrarkostnað svo sem bifreiðakostnað, sem kann að hafa gengið til öflunar nefndra tekna. Kærandi hefur ekki látið fylgja skattframtali sínu rekstrarreikning vegna þessarar starfsemi sinnar á árinu 1979. Er því eigi unnt að taka afstöðu til þess, hvaða hlutir af nefndum kostnaði hafi gengið til öflunar á tekjum frá síðastgreindum aðilum.

Af launamiða, sem borist hefur frá launadeild fjármálaráðuneytisins og er meðal gagna málsins, nemur gæsluvaktarþóknun til kæranda á árinu 1979 samtals 1 194 467 kr. Sambærilegar upplýsingar liggja ekki fyrir frá Reykjavíkurborg, en kærandi telur í kæru

sinni til skattstjóra þóknun þessa nema 25% af launum frá þeim aðila. Af kröfugerð kæranda verður ráðið, að hann telji þóknun frá þessum aðilum fyrir gæsluvaktarþjónustu sína njóta vissrar sérstöðu gagnvart öðrum launum frá sömu aðilum. Af gögnum málsins og skýringum kæranda verður ekki nánar ráðið hver sú sérstaða kynni að vera eða hvers eðlis þóknun þessi kunni að vera í skilningi 7. gr. laga nr. 40/1978.

Að virtum framangreindum atriðum er kæru kæranda vísað frá að svo stöddu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja