Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 475/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 1. tl. A-liðar 7. gr., 59. gr., 95. gr., 96. gr., 100. gr.
Byggingarmeistari — Reiknað endurgjald — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Kæruúrskurður skattstjóra — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Grenjavinnsla — Málsmeðferð áfátt
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.
Málavextir eru þeir, að kærandi taldi sér til tekna reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur að fjárhæð 5 000 000 kr., en kærandi hafði með höndum byggingar-starfsemi. í fylgigagni með skattframtalinu var tekið fram, að tilfært reiknað endurgjald væri 2/3 af meðaltalsviðmiðunarreglum ríkisskattstjóra með tilliti til aldurs framteljanda.
Með bréfi dags. 21. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda að reiknuð laun við eigin atvinnurekstur hefðu verið hækkuð um 2 500 000 kr. eða í 7 500 000 kr. í samræmi við ákvæði 59. gr. skattalaga og viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra, dags. 5. og 13. maí 1980. Yfirfæranlegt tap til næsta árs yrði samkvæmt þessu 9 350 359 kr.
Þessi breyting skattstjóra var kærð af kæranda hálfu með bréfi dags. 29. ágúst 1980, og vísað til þess að aldur kæranda (60 ár) takmarkaði starfsgetu svo sem fram hefði komið í framtalsgögnum.
Með úrskurði dags. 19. desember 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. Vísaði skattstjóri í úrskurðinum til 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. og 1. mgr. 59. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þá vísaði skattstjóri til viðmiðunarreglna ríkisskattstjóra, dags. 5. maí 1980, þar sem áætlaðar væru lágmarks viðmiðunartekjur stjórnenda í eigin atvinnurekstri, er greiddu laun sem svöruðu til launa fyrir störf þriggja eða fleiri launþega á árinu. Næmi viðmiðunarfjárhæð 7 500 000 kr. Kærandi hefði starf sitt í þágu rekstrarins að aðalstarfi og væru reiknuð laun að fjárhæð 5 000 000 kr. einu tekjur kæranda og maka hans. Ekki lægju fyrir neinar upplýsingar um skerta starfsorku kæranda eða aðrar ástæður fyrir skertu vinnuframlagi. Leit skattstjóri svo á að órökstutt og óstaðfest væri að sextíu ára aldur takmarkaði starfsgetu.
Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 17. janúar 1981. í framhaldi af kæru barst rökstuðningur kæranda með bréfi dags. 22. apríl 1981. Er ítrekaður sá sami rökstuðningur og af hans hálfu hefur áður komið fram um, að aldur hafi að nokkru rýrt starfsgetu hans sem húsasmíðameistara. Bent er á, að í 59. gr. skattalaga sé skýlaust tekið fram, að gætt skuli aldurs skattaðila í þessum efnum.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi, dags. 15. júní 1981:
„Að úrskurður skattstjóra varðandi reiknað endurgjald verði staðfestur enda ekkert upplýst í málinu.
Á það skal bent að eigi verður annað ráðið en að sala kæranda á hluta í húseigninni X-12 falli utan undanþáguákvæða 16. gr. skattalaga. Kærandi er húsasmíðameistari sem m, a. hefur haft af því atvinnu að byggja og selja íbúðir og virðist mjög nærlegt að telja íbúðina að X-12 byggða í þeim tilgangi að selja hana á ný með hagnaði. Bæri því að skattleggja mismun kostnaðarverðs og söluverðs og er gerð krafa um að ríkisskattanefnd leiðrétti framtalið að þessu leyti.“
Síðastnefndum þætti í kröfugerð ríkisskattstjóra er vísað frá ríkisskattanefnd með því að eigi liggur fyrir neinn kæranlegur úrskurður skattstjóra um þetta efni, er hefði getað veitt ríkisskattstjóra heimild til þess að neyta kæruréttar síns samkvæmt 2. mgr. 100. gr. laga nr. 40/1978 innan þess frests er þar greinir.
Skattstjóri hækkaði tilfært reiknað endurgjald kæranda um 2 500 000 kr. og fór með þá breytingu eftir ákvæðum 3. ml, 1. mgr. 95. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, en eigi eftir ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. s. 1. Í úrskurði skattstjóra er staðhæft, að „einu tekjur kæranda og maka hans“ séu reiknuð laun að fjárhæð 5 000 000 kr. Virðist hér átt við, að kærandi hafi eigi starfað að öðru en aðalstarfi sínu, sem er byggingarstarfsemi. í skattframtali kemur fram að kærandi hefur legið á grenjum og haft af því tekjur. Þá er frásögn skattstjóra af efni 1, mgr. 59. gr. laga nr. 40/1978 eigi viðhlítandi. Með skírskotun til framanritaðs eru kröfur kæranda teknar til greina.