Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 479/1981

Gjaldár 1979

Lög nr. 7/1980   Lög nr. 40/1978. 2. tl. A-liðs 7. gr., 3. mgr. 30. gr.  

Mistalningsfé — Bensínafgreiðslumaður — Sönnun

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda 1980 að heimila ekki til frádráttar sömu fjárhæð og kærandi hafði fært til tekna sem mistalningsfé greitt af vinnuveitanda hans á árinu 1979.

Kærandi taldi fram í framtali sínu mistalningsféð, 255 694 kr., sem „laun greidd í hlunnindum“ sbr. 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og sömu fjárhæð til frádráttar sem „hlunnindi til frádráttar“, sbr. 4. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. sömu laga. Með bréfi dags. 25. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda að „frádráttur vegna mistalningsfjár, 255 694 kr. hefur verið felldur niður, ekki frádráttarbært.“ Er ekki gerð grein fyrir því þar, hvers vegna svo sé. Kærandi kærði breytingu þessa til skattstjóra með kæru dags. 23. ágúst 1980. Mótmælti kærandi því, að mistalningsfé frá X-verslun Íslands hf. væri skattlagt sem tekjur „þar sem þessir peningar eru ekki tekjur, heldur umsamin prósenta á kaup til að mæta þeim mismun, sem stundum kemur fram þegar gerð er upp sala dagsins. Ég ber ábyrgð á því að peningarnir stemmi við það sem er innstimplað í peningakassann og þegar það hefur komið fyrir að vantar upp á að peningarnir passi þá hef ég orðið að greiða mismuninn sjálfur, þannig að það mistalningsfé, sem ég hef fengið eru alls ekki tekjur.“ Með bréfi dags. 21. október 1980 óskaði skattstjóri eftir því við kæranda að hann léti, áður en kæran yrði afgreidd, í té gögn er sýni fram á þann kostnað sem hann hafi orðið „fyrir á móti mistalningsfé á árinu 1979.“ Þann 31. október 1980 móttók skattstjóri yfirlýsingu vinnuveitanda kæranda, dags. 28. október 1980, þar sem staðfest er að mistalningsfé það sem greitt var kæranda „er svipuð fjárhæð og hann varð að standa skil á vegna mismunar er fram kom í kassauppgjörum á árinu 1979.“ Með úrskurði dags. 18. nóvember 1980 ákvað skattstjóri að álögð gjöld 1980 skyldu óbreytt standa. Segir svo í forsendum þessa úrskurðar: „Með bréfi, dags. 21. okt. sl., var kærandi beðinn um að leggja fram gögn til stuðnings kröfu sinni. Þar sem gögn hafa ekki borist þykir verða að synja kröfu kæranda."

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 11. desember 1980. í þeirri kæru kemur m. a. eftirfarandi fram:

„Á framtali mínu taldi ég fram til tekna místalningsfé 255 694 kr. og sömu fjárhæð til frádráttar, þar sem hér var ekki um tekjur að ræða, heldur greiðslu vegna mismunar á kassauppgjörum vegna benzínsölu á árinu 1979, sem ég þurfti að standa skil á, en fékk síðan sömu fjárhæð frá vinnuveitanda, sem mistalningsfé, þannig að ég stóð sléttur eftir hvað þetta varðar.

Ég hef sent Skattstofu Reykjanesumdæmis staðfestingu á þessu frá vinnuveitanda mínum, en samt sem áður neitar skattstjórinn í Reykjanesumdæmi að leiðrétta álagningu

Ég hef sent Skattstofu Reykjanesumdæmis staðfestingu um þetta frá vinnuveitanda mínum, en samt sem áður neitar Skattstjórinn í Reykjanesumdæmi að leiðrétta álagningu gjalda minna árið 1980.“

Ríkisskattstjóri hefur í bréfi dags. 6. apríl 1981 gert svofellda kröfugerð:

„Að hin kærða álagning verði staðfest þar sem lagaheimild til hins umkrafða frádráttar er ekki fyrir hendi,

Af yfirlýsingu vinnuveitanda kæranda eða öðrum gögnum málsins verður ekki ráðið að um greiðslu vegna raunverulegra útgjalda kæranda á árinu 1979 hafi verið að ræða eða hver fjárhæð þeirra var.

Verður því að telja að ósannað sé að um endurgreiðslu útgreidds kostnaðar hafi verið að ræða og skortir lagaheimild til frádráttar.

Með hliðsjón af því er gerð krafa um staðfestingu álagningarinnar.“

Kærandi vann á árinu 1979 sem afgreiðslumaður á einni af bensínstöðvum þeim er vinnuveitandi hans rekur og hafði hann umsjón með innkomnum peningum fyrir seldar vörur. Fékk kærandi greidda tiltekna þóknun, mistalningsfé, til viðbótar föstum launum sínum, sem ætluð var til að mæta greiðsluskyldu hans á mismun þeim, sem fram kynni að koma við samanburð á innstimplaðri sölu í peningakassa stöðvarinnar við peningafjárhæð í kassanum. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi bæri ábyrgð á því að samræmi væri þar á milli og þurft að greiða af mistalningsfénu ef á vantaði. Ráðstöfun á áhættufénu var því kvaðabundin, þannig að kærandi gat eigi ráðstafað því að eigin vild. Þó að markmiðið með greiðslu mistalningsfjárins sé það, að kærandi skaðist eigi, þrátt fyrir ábyrgð sína á sjóðsrýrnuninni, verður að ætla að hann njóti hags af því, ef greiðsla hans er lægri en nemur mistalningsfénu, en bíði skaða af ef hún er hærri. Eigi liggur fyrir hvað gert sé í þeim tilvikum þegar talning úr kassanum sýnir hærri fjárhæð en innstimpluð sala. Þegar framangreind atriði eru virt þykir bera að telja mistalningsféð til skattskyldra tekna kæranda í skilningi 7. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, og þykir mega telja það frekast til þeirra tegunda tekna sem um er getið í 2. tl. A-liðs greinarinnar.

Kemur þá til athugunar hvaða kostnað er heimilt að draga frá nefndum tekjum við ákvörðun stofns til tekjuskatts. Samkvæmt 3. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. k-lið 14. gr. laga nr. 7/1980, er kæranda heimilt að draga frá tekjunum beinan kostnað vegna þeirra með þeim undantekningum er þar greinir. Er því kæranda heimilt að draga frá fengnu mistalningsfé kostnað þann sem hann verður fyrir vegna mistalningar.

Kærandi hefur fullyrt að hann hafi þurft á árinu 1979 að greiða vegna mistalningar fjárhæð sem var jafnhá mistalningsfé, því sem vinnuveitandi hans lét honum í té. Til stuðnings þeirri fullyrðingu hefur verið lögð fram yfirlýsing vinnuveitandans um að mistalningsféð hafi numið svipaðri fjárhæð og kærandi hafi orðið að standa skil á vegna mismunar er fram hafi komið í kassauppgjörum á árinu 1979. Þykir eins og á stendur mega leggja það til grundvallar að kostnaður kæranda vegna mistalningar hafi á árinu 1979 numið jafnhárri fjárhæð og fengið mistalningsfé, enda þykir fjárhæðin innan hóflegra marka. Er því fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja