Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 489/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 63. gr.
Hjón — Sköttun hjóna — Samvistaslit — Frávísun
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980. í kæru sinni til ríkisskattanefndar gerir kærandi svofellda grein fyrir kröfum sínum:
„Af hálfu umbj. míns er mótmælt þeirri ákvörðun Skattstofunnar að bæta tekjum eiginkonu umbj. míns við tekjur umbj. míns og eignum hennar við eignir hans, við ákvörðun skatta hans.
Umbj. minn telur að þessi aðferð brjóti gróflega gegn þeim sjónarmiðum að menn eigi ekki að borga skatta af tekjum og eignum annarra. Úrskurðaraðili í skattamálum verður að mati umbj. míns að taka tillit til svo sjálfsagðra sjónarmiða.
Þá er af hálfu umbj. míns einnig upplýst, að hann hefur engin afskipti haft af rekstri konu sinnar og ekki haft neinn aðgang að honum og ekki ákvörðunarvald um hann. Verður ekki séð að hann eigi slíkan ákvörðunar- og afskiptarétt meðan hjónaband varir.
Af hálfu umbj. míns er talið sérstakt tilefni til að mótmæla og hnekkja þessu skattalagaákvæði, sem úrskurðurinn er byggður á af því lögin eru ný, þótt þau byggi á gömlum sjónarmiðum, en þess skal þó getið, að umbj. minn mótmælti einnig kröftuglega sambærilegu óréttlæti eldri skattalaga.“
Ríkisskattstjóri krefst þess í bréfi dags. 30. mars 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi og maki hans töldu fram til skatts vegna gjaldársins 1980 og skiluðu skattstjóra í veittum viðbótarframtalsfresti hvort sínu skattframtalinu ásamt fylgigögnum. Verður það ráðið að þau hafi notið aðstoðar við framtalsgerðina og sami aðili eigi veitt þá aðstoð. Við ákvörðun gjalda 1980 fór skattstjóri með nefnd framtöl og ákvarðaði skattstofna svo sem um hjón sem samvistum eru væri að ræða. Af hálfu kæranda er því ekki haldið fram að samvistaslit hefðu orðið með þeim hjónum. Svo sem mál þetta liggur fyrir, þykir eigi verða hjá því komist að vísa kærunni frá.