Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 493/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 69. gr.  

Barnabætur — Framfærandi — Meðlagsgreiðandi — Heimilisfesti — Lögheimili — Lögskýring

Kærð er ákvörðun barnabóta gjaldárið 1980.

Málavextir eru þeir, að í kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1980, gerði kærandi þá kröfu að honum yrðu ákveðnar barnabætur vegna dóttur hans, X f. 15. 6.1967, er flust hefði síðast á heimili hans 24. apríl 1980, sbr. ljósrit tilkynningar um aðsetursskipti sem kærunni fylgdu. Hefði barnið flust frá heimili móður í Vestmannaeyjum. Frá þessum tíma hefði kærandi verið framfærandi barnsins í skilningi 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Krafðist kærandi því barnabóta hlutfallslega. Í kærunni gat kærandi þess, að umrætt barn hefði flust á heimili hans í júní 1976 og dvalist þar uns það hefði í októberlok 1977 farið aftur á heimili móður. Fyrir þetta tímabil hefði hann eigi fengið fullar barnabætur heldur einungis við álagningu 1977. ,

Með úrskurði dags. 9. október 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda varðandi ákvörðun barnabóta gjaldárið 1980. í forsendum er tekið fram, að barnabætur þetta gjaldár væru ákvarðaðar með hliðsjón af fjölda þeirra barna, sem væru á framfæri kæranda á tekjuárinu 1979 skv. 69. gr. skattalaga. Ekki yrði séð, að kærandi hefði verið framfærandi X í þeirri merkingu, sem í það orð væri lögð í nefndri grein skattalaganna. Þá liggur fyrir að skattstjóri hefur endurákvarðað barnabætur kæranda gjaldárið 1978 þann 26. október 1978 og fellt niður barnabætur vegna X. Eigi var endurákvörðun þessi kærð til skattstjóra.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. nóvember 1980. Af hálfu kæranda er vísað til skýringa og rökstuðnings í kæru til skattstjóra. Þá bendir kærandi á, að úrskurður skattstjóra gjaldárið 1980 sé ekki samrýmanlegur endurákvörðun hans gjaldárið 1978, en við þá endurákvörðun hafi kærandi látið sitja. Í úrskurðinum sé meginforsendan, að barnabætur gjaldárið 1980 séu ákvarðaðar með hliðsjón af fjölda þeirra barna, er hafi verið á framfæri kæranda á tekjuárinu 1980. í endurákvörðuninni sé sú forsenda ekki virt, sé hún þá rétt, heldur aðeins byggt á því að barnið hafi skv. upplýsingum Hagstofu Íslands átt lögheimili í Vestmannaeyjum. Þar sé því ekki virt, sem gert sé að meginforsendu, gjaldárið 1980, þ. e. framfærslan á tekjuárinu. Önnur hvor niðurstaðan hljóti því að vera röng.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 1. apríl 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Ákvörðun barnabóta gjaldárið 1978 er eigi til kærumeðferðar og verður því eigi um það atriði fjallað í máli þessu. Samkvæmt 1. ml. 1. mgr. 69. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 5. gr. laga nr. 20/1980, um breyting á þeim lögum, skal ríkissjóður greiða barnabætur til framfæranda hvers barns innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra manna, sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laganna. Skv. 4. mgr. nefndrar lagagreinar telst framfærandi skv. greininni sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess. Sá sem greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Fyrir liggur í málinu, að umrætt barn fluttist til kæranda eigi fyrr en 24. apríl 1980 og var á framfæri móður allt tekjuárið 1979. Greiddi kærandi meðlag með barninu það ár svo sem fram kemur í skattframtali hans árið 1980. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja