Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 503/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 7. tl. 31. gr., 100. gr.  

Rekstrartap — Yfirfæranlegt rekstrartap — Leiðrétting ríkisskattanefndar — Áætlun — Kæra

Kærð er álagning opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1980.

Í framhaldi af kæru til ríkisskattanefndar sendi umboðsmaður kæranda bréf dags. 15. maí 1981. í því segir umboðsmaðurinn m. a.:

„Fallist er á úrskurð Skattstjóra Suðurlandsumdæmis vegna skattframtals fyrirtækisins fyrir árið 1980 (rekstrarárið 1979) að öðru leyti en því, að hann tiltekur að yfirfæranlegt tap milli ára sé 91 289 975 kr. Ekki kemur fram hvort það er yfirfæranlegt tap frá árinu 1979, eða hvort það sé yfirfæranlegt tap til ársins 1981.

Sé hér um að ræða yfirfæranlegt tap til ársins 1981, þá er ekkert við það að athuga, en sé það hins vegar yfirfæranlegt tap frá árinu 1979 fer ég fram á að það verði leiðrétt, en ég taldi það vera 143 233 942 kr.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 30. júní 1981 gerð svofelld krafa í málinu fyrir hönd gjaldkrefjanda: „Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar eð skattstjóri hafði þegar ákvarðað kæranda yfirfæranlegt tap að upphæð 91 289 975 gkr. og kæran því tilefnislaus.“

Samkvæmt gögnum málsins verður ekki séð að kærandi eigi nein yfirfæranleg rekstrartöp frá fyrri árum til frádráttar tekjum 1979, enda taldi hann ekki fram til skatts vegna gjaldársins 1979 og honum því áætlaðir gjaldstofnar, þ. m. t. tekjuskattsstofn, við ákvörðun opinberra gjalda það ár. Kærandi hefur í ársreikningi sínum 1979 fært þau gjöld, sem álögð voru í samræmi við þá áætlun, án athugasemda. Þykir því bera að fella liðinn „tap f. f. árum 143 209 362 kr.“ niður af framtalinu sem órökstuddan og breyta þegar álögðum opinberum gjöldum í samræmi við það og er þá tekið tillit til þeirra breytinga er skattstjóri gerði á teknahlið framtalsins. Þykir heimilt að framkvæma breytingu þessa hér, enda er hún í samræmi við framtals- og kærugögn kæranda svo sem þau eru lögð fram fyrir ríkisskattanefnd og kæran byggð á rangri forsendu um nefnt tap.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja