Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 255/1992
Gjaldár 1989
Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I.
Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Vaxtagjöld til ákvörðunar vaxtaafsláttar — Byggingarkostnaður — Húsbygging — Húsbyggjandi — Gatnagerðargjald — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Byggingartími
Málavextir eru þeir, að meðal vaxtagjalda í greinargerð um vaxtagjöld af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis (RSK 3.09) færði kærandi vaxtagjöld 146.550 kr. af skuld við X. Lán þetta var tekið árið 1986 til 4 ára og var vegna greiðslu B-gatnagerðargjalda. Skattstjóri taldi, að vaxtagjöld af láni þessu kæmu ekki til álita við ákvörðun vaxtaafsláttar, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 18. maí 1990.
Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 4. júní 1990. Er þess krafist, að vaxtagjöld af umræddu láni verði viðurkennd við ákvörðun vaxtaafsláttar. Tekur umboðsmaðurinn fram, að B-gatnagerðargjald sé óumdeilanlega byggingarkostnaður. Húsbyggjandi fái því ekki ráðið, hvenær ráðist sé í slíkar framkvæmdir. Ef allt hefði verið eðlilegt, hefði verið gengið frá götunni innan 7 ára frá upphaflegum byggingartíma.
Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Samkvæmt gögnum málsins hefur skattstjóri heimilað til frádráttar vaxtagjöld af umræddu láni fyrri ár. Að því athuguðu og málavöxtum að öðru leyti þykir rétt að taka kröfu kæranda til greina.