Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 514/1981
Gjaldárið 1976
Lög nr. 8/1972, 2. mgr. 24. gr. Lög nr. 40/1978, 1. mgr. 107. gr. Lög nr. 10/1960, 2. mgr., 25. gr. Lög nr. 68/1971, 1. mgr. 48. gr.
Skattsektir — Ófullkomin rannsókn — Tekjuskráning — Bókhald
Með bréfi dags. 16. mars 1981 hefur skattrannsóknarstjóri krafist þess að ríkisskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál S, X-götu 26. í því bréfi er svofelld kröfugerð:
„Málavextir eru í stuttu máli þeir, að gjaldandi taldi fram til skatts fyrir gjaldárið 1976 og skilaði undirrituðu skattframtali nefnt ár ásamt undirrituðum ársreikningum. Við athugun rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á þessu skattframtali og því bókhaldi er liggur því til grundvallar kom í ljós, að margvíslegir annmarkar voru á bókhaldi gjaldanda, t. d. gætti verulegrar ónákvæmni við frumskráningu sölu og sölunótur vantaði í bókhaldið. Samkvæmt gögnum málsins og með hliðsjón af skýringum gjaldandans, tók ríkisskattstjóri til ákvörðunar að nýju áður álögð opinber gjöld nefnd gjaldár og áætlaði honum hreinar tekjur til skatts. Enn fremur var gjaldanda ákvörðuð söluskattsskyld viðbótarvelta og gert að greiða söluskatt í samræmi við það. Gjaldandi kærði ekki skatthækkun þessa.
Áætlun ríkisskattstjóra leiddi af sér hækkun opinberra gjalda sem hér segir:
Tekjuskattur og útsvar:
Gjaldár Hœkkun tekjuskatts Hœkkun útsvars
1976 375 204 132 000
Söluskattur:
Rekstrarár Viðbótarsöluskattur Viðurlög
1975 238 238 175 569
Samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra skýrði gjaldandi á umræddum skattframtölum rangt frá tekjum sínum rekstrarárið 1975, þannig að það leiddi til lægri álagningar tekjuskatts og útsvars gjaldárið 1976 en vera átti. Telja verður að þetta varði gjaldanda sektum skv. 1. mgr. 48. gr. laga nr. 68/1971, sbr. 1. mgr. 107. gr. laga nr. 40/1978, sbr. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 8/1972 með áorðnum breytingum.
Með tilliti til framangreinds var söluskattsskyld velta gjaldandans vanframtalin nefnt rekstrarár og greiddi hann því lægri söluskatt en honum bar með þeim hætti að telja verður að það varði gjaldanda sektum skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960, sbr. 14. gr. laga nr. 10/ 1974.“
Með bréfi ríkisskattanefndar, dags. 16. mars 1981, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn sinni í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra. Gjaldandi hefur eigi svarað bréfi þessu.
Endurupptaka ríkisskattstjóra á þeim gjöldum, sem um getur í bréfi skattrannsóknarstjóra, var byggð á athugun rannsóknardeildar ríkisskattstjóra á bókhaldi og bókhaldsgögnum gjaldanda ársins 1975. í bréfi ríkisskattstjóra, dags. 2. maí 1978, er því lýst að samkvæmt gögnum, sem rannsóknardeildin hafi undir höndum og gjaldandi hafi m. a. afhent, hafi hann haft tekjur af viðgerðarþjónustu á árinu 1975. í bókhaldi því sem lagt hafi verið fram séu m. a. frumbækur en sölunótur úr þeim hafi verið gefnar út fyrir hverri sölu samkvæmt upplýsingum gjaldanda. Ekki verði séð að nefndar sölunótur séu í hlaupandi töluröð. Við samanburð á framlögðum gögnum og upplýsingum, sem fyrir liggja, komi fram að sölunótur vanti í bókhaldi gjaldanda að fjárhæð 482 021 kr. Samkvæmt því hafi gjaldandi vantalið tekjur sínar til skatts umrætt ár.
Í máli þessu liggur eigi fyrir lýsing á því bókhaldi er gjaldandi afhenti rannsóknardeild ríkisskattstjóra til athugunar. Eigi liggur heldur fyrir hvaða upplýsingar rannsóknardeildin aflaði og notaði við samanburð á framlögðum gögnum af hálfu gjaldanda og honum ekki gerð grein fyrir þeim. Þá liggur eigi fyrir nákvæm lýsing á þeim sölunótum, sem vantaði í bókhaldi gjaldanda, en þær námu að sögn alls að fjárhæð 482 021 kr. Gjaldanda var og ekki gerð grein fyrir því hverjir þeir aðilar væru sem tekjur voru vantaldar frá. Þegar þetta er virt svo og það að hækkun ríkisskattstjóra var byggð á full ríflegri áætlun miðað við atvik, þykja eigi efni til að gera gjaldanda að greiða sekt svo sem skattrannsóknarstjóri krefst.