Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 597/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 1. gr., 4—9. tl. 3. gr., 2. tl. C-liðar 7. gr., 83. gr., 84. gr., 116. gr.  

Takmörkuð skattskylda — Reiknaðar húsaleigutekjur — íbúðarhúsnæði — Eignarskattsstofn — Eignarskattsskylda — Eignarskattsákvörðun — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattskyldar tekjur — Eigin notkun — Sifjalið — Úrskurðarvald ríkisskattstjóra — Heimilisfesti — Námsmaður erlendis — Húsaleigutekjur

Á árinu 1979 stundað kærandi nám í Danmörku. Lét hún tveimur sonum sínum í té afnot íbúðar sinnar í Reykjavík þar sem þeir stunduðu nám. Við ákvörðun gjalda 1980 var kærandi skattlögð sem berandi takmarkaðra skattskyldu hér á landi. Voru henni ákvarðaðar tekjur skv. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt vegna nefndrar íbúðar sinnar, sbr. 5. tl. 3. gr. sömu laga. Þá var henni talin íbúðin til skattskyldrar eignar, sbr. 9. tl. 3. gr. Verður ekki annað séð en að ágreiningur sé með umboðsmanni kæranda og umboðsmanni gjaldkrefjanda um ákvörðun þessa, en ríkisskattstjóri hefur í bréfi dags. 25. maí 1981 krafist staðfestingar á ákvörðun skattstjóra.

Leggja verður til grundvallar í máli þessu að kærandi hafi borið takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna gjaldársins 1980, enda hefur eigi verið leitað eftir úrskurði ríkisskattstjóra um heimilisfesti kæranda hér á landi á árinu 1979, sbr. 1. og 2. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt.

Í 1. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. nefndra laga segir að til skattskyldra tekna skuli m. a. teljast leigutekjur eftir hvers konar fasteignir. í 2, mgr. sama töluliðar er það ákvæði að þegar heildartekjur af einstökum íbúðum ná ekki hlunnindamati húsnæðis, sbr. 116. gr., skuli reikna leiguna til tekna með því mati. Sú undantekning er þar gerð frá þessu að af íbúðarhúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skuli hvorki reikna tekjur né gjöld. Undanþágu þessa þykir bera að skýra svo að afnot sona kæranda af íbúð hennar á árinu 1979 teljist svo sem hér á stendur falla undir notkun til eigin þarfa hennar í skilningi undanþáguákvæðisins. Bar því hvorki að reikna kæranda tekjur né gjöld af íbúðinni svo sem skattstjóri gerði. Ber því að fella hina kærðu teknaákvörðun skattstjóra úr gildi.

Samkvæmt 9, tl. 3. gr. nefndra laga skulu allir aðilar, sem takmarkaða skattskyldu bera og eiga eignir sem skattskyldar tekjur gefa skv. 4.—8. tl. greinarinnar, greiða eignarskatt af þeim eignum. Með því að kærandi ber engar skattskyldar tekjur á árinu 1979 samkvæmt framansögðu er hún undanþegin greiðslu eignarskatts af þeirri eign gjaldárið 1980. Er því eignarskattsákvörðun skattstjóra einnig felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja