Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 630/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 40/1978, 2. tl. A-liðs 7. gr., 3. mgr. 30. gr., 1. tl. 31. gr.
Rekstrarkostnaður — Námsstyrkur — Læknir — Ráðstefnukostnaður — Námskeiðskostnaður — Frádráttarheimild
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1980 að heimila ekki til frádráttar tekjum sem rekstrarkostnað, ráðstefnu- og námskeiðskostnað að fjárhæð 1 456 443 kr. Kærandi hafði á árinu 1979 farið í alls þrjár ráðstefnu- og námsferðir til Bandaríkjanna og Skotlands. Tóku ferðirnar alls um 30 daga og nam heildarkostnaður 1 781 443 kr. Vegna þessa þá kærandi styrk úr námssjóði lækna að fjárhæð 325 000 kr. og heimilaði skattstjóri til frádráttar af nefndum kostnaði sömu fjárhæð og styrknum nam. Er í máli þessu deilt um frádráttarbærni eftirstöðva kostnaðarins.
Með bréfi dags. 12. júní 1981 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Frádrátt frá skattskyldum tekjum skattaðila er því aðeins heimilt að veita að til þess sé ótvíræð lagaheimild. Á það er fallist með skattstjóra, að kostnaður sá sem um er getið í máli þessu teljist ekki til rekstrarkostnaðar í skilningi 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóra var heimilt að veita kæranda til frádráttar kostnað að sömu fjárhæð og fengnum styrk nam, sbr. 3. mgr. 30. gr. nefndra laga með síðari breytingum. Hvorki sú málsgrein né Önnur frádráttarákvæði þykja taka til umframkostnaðarins. Er því kröfum kæranda synjað og úrskurður skattstjóra staðfestur að niðurstöðu til, að því er umrætt kæruatriði varðar.