Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 705/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. tl. A-liðs 7. gr.  

Skattskyldar tekjur — Örorkubætur — Örorka — Tímabundin örorka — Varanleg örorka — Slysatrygging — Skaðabætur — Tryggingafélag

Kærð er álagning opinberra gjalda 1980 og þess krafist að tryggingabætur að fjárhæð 4 621 686 kr. verði undanþegnar skattskyldu. Kærandi slasaðist þann 29. janúar 1979. Hafði hann keypt sér „almenna slysatryggingu“ hjá tilteknu tryggingarfélagi, sem greiddi honum samtals í bætur vegna slyssins 7 535 370 kr. að því er ráðið verður af gögnum málsins. Bótafjárhæðin var annars vegar vegna tímabundinnar Örorku og nam samtals 5 006 820 kr., þar af 4 621 686 kr. greiddar á árinu 1979 en 385 140 kr. á árinu 1980, og hins vegar vegna varanlegrar örorku 2 888 550 kr., sem greiddar voru á árinu 1980. Kærandi hafði í skattframtali sínu 1980 fært sér til tekna þá fjárhæð sem hann fékk greidda á árinu 1979. Hann krefst þess nú í kæru sinni að sú fjárhæð verði undanþegin skattskyldu. Skattstjóri hafði í kæruúrskurði sínum synjað þeirri kröfu.

Með bréfi dags 7. maí 1981 krefst ríkisskattstjóri þess að „úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Bótafjárhæð sú sem kærandi fékk greidda á árinu 1979 vegna tímabundinnar örorku telst til skattskyldra tekna skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt og er hún hvorki undanþegin skattskyldu skv. 2. tl. 28. gr. sömu laga né öðrum lagaákvæðum. Er því kröfu kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja