Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 706/1981

Gjaldár 1980

Lög 40/1978, 5. mgr. 53. gr., sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980  

Verðbreytingarfærsla — Lögskýring — Niðurfelling tekjufærslu vegna verðbreytingar — Heildareignir — Heildarskuldir — Síðbúin kæra — Sameignarfélag

Málavextir eru þeir, að með bréfi dags. 27. ágúst 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, sem var sameignarfélag nokkurt, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali þess árið 1980, að verðbreytingarfærsla að fjárhæð 620 723 kr. hefði verið færð til tekna, sbr. 2. mgr. 53. gr. skattalaga. Skattframtali kæranda árið 1980 fylgdi útfyllt skjal vegna verðbreytingarfærslu og nam tekjufærsla samkvæmt því 620 723 kr. Sú fjárhæð var eigi færð til tekna. í skattframtalinu var tekið fram, að „tekjufærsla v/verðbreytinga er ekki færð til tekna sbr. ákvæði 5. ml. (sic) 53. gr. laga um tekju- og eignarskatt.“ Hagnaður var af rekstri kæranda rekstrarárið 1979. Námu hreinar tekjur til skatts samkvæmt framtali 2 751 487 kr.

Breyting skattstjóra var kærð af hálfu kæranda með bréfi dags. 29. september 1980. Með úrskurði dags. 30. janúar 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. í úrskurði sínum vitnar skattstjóri tíl þess, að skv. 5. mgr. 53. gr. skattalaga skuli, þegar skuldir skattaðila skv. 4. mgr. greinarinnar séu hærri en heildareignir hans, sbr. 73. gr., sá hluti reiknaðrar tekjufærslu samkvæmt greininni falla niður sem umfram væri skattalegt tap ársins eða ójöfnuð töp frá fyrri árum. Tekur skattstjóri fram, að samkvæmt nefndri málsgrein 53. gr. skattalaga þurfi bæði skilyrðin að vera uppfyllt, þ. e. skuldir umfram eignir og um tap (eða töp) að ræða. Af rekstri væri hagnaður, þannig að skilyrðið um tap væri ekki uppfyllt.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 2. mars 1981.Í kæru er svofelldur rökstuðningur:

„Í úrskurði skattstjórans í Reykjavík er því haldið fram að þau tvö skilyrði þurfi að vera fyrir hendi að tap á rekstri og að skuldir séu umfram eignir til þess að tekjufærsla falli niður skv. 5. mgr. 53. gr.

Minn skilningur á umræddri málsgrein er sá að í fyrri hluta hennar komi fram sú meginregla að séu skuldir umfram eignir skuli tekjufærsla falla niður.Í síðari hluta hennar er hins vegar sá fyrirvari að sé um tap að ræða og/eða yfirfæranleg töp frá fyrri árum skuli reikna tekjufærslu að því marki að umrædd töp þurrkist út. Frekari rökstuðningur verður ekki hafður í frammi, en undirstrikað að sé fallist á ofangreinda túlkun mína, skal tekjufærsla falla niður í þessu tilfelli, þar sem ekki er um töp né yfirfæranleg töp að ræða.“

Af hálfu ríkisskattstjóra hafa verið gerðar þær kröfur í málinu með bréfi dags. 1. apríl 1981 að kærunni verði vísað frá, þar sem svo virðist sem hún sé of seint fram komin.

Eigi þykja efni til þess að vísa kærunni frá á þeim forsendum, að hún sé of seint fram komin. Er því frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hrundið og kæran tekin til efnismeðferðar.

Með vísan í 5. mgr. 53. gr. laga nr. 40/1978 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 27. gr. laga nr. 7/1980 um breyting á þeim lögum, þykir verða að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja