Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 725/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 3. tl. 1. mgr. 31. gr., 2. mgr. 5. tl. 74. gr.  

Útistandandi viðskiptaskuldir — Niðurfærsla — Lögskýring — Stofnun kröfu — Gjalddagi kröfu — Víxill — Víxilkrafa — Vörusala — Viðskiptakrafa

Kærð eru álögð gjöld gjaldárið 1980.

Skattstjóri strikaði út 5% niðurfærslu á vöruvíxlaeign fyrirtækisins við álagningu tekju-og eignarskatts 1980. Af hálfu kæranda er þess krafist að niðurfærslan verði heimiluð. í kæru umboðsmanns kæranda segir m. a.: „Raunar er ekki ástæða til að orðlengja um mál þetta. Hér liggur fyrir skýr skilgreining í texta laganna, 2. mgr. 5. tl. 74. gr. „Útistandandi viðskiptaskuldir í þessu sambandi teljast kröfur sem stofnast hafa vegna sölu á vörum og þjónustu" o. s. frv. Engu máli skiptir hver er skuldari eða hvernig skuldin er tryggð. Hvort fyrir henni er ríkisábyrgð, bankaábyrgð, fasteignaveð eða hvort hún nýtur réttarfarshagræðis víxlalaga. Það er því ekki á sviði skattyfirvalda að þrengja umrædda frádráttarheimild frá því sem skýr lagatexti ákveður hana.“

Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 30. mars 1981 gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Röksemdir:

Ríkisskattstjóri hefur fengið skattstjórum leiðbeiningar um umrætt atriði í bréfi frá 27. október 1980 á þessa leið: „Heimild til niðurfærslu útistandandi viðskiptaskulda nær aðeins til skulda samkvæmt viðskiptareikningum. Viðskiptavíxlar teljast ekki með í útistandandi viðskiptaskuldum og nær 5% niðurfærslan því ekki til viðskiptavíxla“. (Bréf ríkisskattstjóra sent til allra skattstjóra og ríkisskattanefndar dags. 27. október 1980, 6. töluliður bls. 3 — 4).

Niðurfærsluheimild í 2. málsliðar 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 40/1978 er efni bréfs ríkisskattstjóra frá 26. febrúar s. 1., þar segir svo:

„Víxlar, þ. m. t. svonefndir viðskiptavíxlar, falla undir 3. málslið 1. mgr. 5. tl. 74. gr. laganna. Ef víxill, sem tekinn hefur verið sem greiðsla í viðskiptum, reynist sannanlega vera óinnheimtanlegur og seljandinn í viðskiptunum því í reynd ekki fengið andvirði vöru eða þjónustu greitt, telst hið fyrra skuldasamband milli kaupanda og seljanda, sem myndast um leið og viðskiptin fara fram, orðið virkt að nýju. Þá fyrst má gjaldfæra skuldina skv. 3. tl. 31. gr. laganna sem tap á útistandandi viðskiptaskuld, þ. e. á því tekjuári sem hún er sannanlega töpuð. í þessu sambandi má benda á dóm Hæstaréttar 1964, bls. 900, til skýringar“. (Bréf ríkisskattstjóra til skattstjórans í Reykjavík dags. 26. febrúar 1981, 2. málsgrein, en ljósrit þess bréfs var sent öllum skattstjórum og ríkisskattanefnd).

Með vísan til ofanritaðs og að öðru leyti til forsendna hins kærða úrskurðar er gerð krafa um staðfestingu úrskurðarins.“

Með hliðsjón af ákvæðum 2. mgr. 5. tl. 74. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þykir eiga að skýra ákvæði 3. tl. 1. mgr. 31. gr. sömu laga svo, að eigi geti skipt máli, hvert form þar um ræddra krafna sé, enda fullnægi þær þeim skilyrðum nefndra lagaákvæða að þær hafi stofnast vegna sölu á vörum og þjónustu og falli í gjalddaga innan eins árs frá því að til þeirra var stofnað. Eru kröfur kæranda því teknar til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja