Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 732/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 40/1978, 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 59. gr., 95. gr., 96. gr.  

Reiknað endurgjald — Viðmiðunarreglur ríkisskattstjóra — Landbúnaður — Málsmeðferð áfátt — Álagningarmeðferð skattstjóra

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

Skattstjóri hækkaði reiknað endurgjald kærenda, hjóna, vegna starfa við eigin atvinnurekstur, er var búrekstur. Reiknað endurgjald eiginmanns var hækkað úr 593 572 kr. í 1 107 333 kr. og reiknað endurgjald eiginkonu úr 1 000 000 kr. í 1 806 701 kr. Kvað skattstjóri breytingu þessa gerða í samræmi við 59. gr. skattalaga og viðmiðunartekjur í bréfi ríkisskattstjóra dags. 5., 13. og 20. maí 1980. Að gerðum breytingum þessum ákvað skattstjóri yfirfæranlegt tap 1 320 462 kr.

Kærandi skaut úrskurði skattstjóra til ríkisskattstjóra með bréfi dags. 30. nóvember 1980. Með bréfi dags. 5. janúar 1981 framsendi ríkisskattstjóri ríkisskattanefnd erindi kæranda, er borist hefði því embætti í kærufresti til ríkisskattanefndar. Krafa kærenda er sú, að reiknað endurgjald þeirra verði miðað við hreinar tekjur af búrekstrinum. Búið sé lítið, árferði 1979 hefði verið mjög erfitt og afurðir því ekki í samræmi við reksturskostnað.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 3. september 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt framtalsgögnum skiptu kærendur hreinum tekjum af búrekstrinum 1 593 572 kr. svo, að eiginmanni voru reiknaðar 593 572 kr. en eiginkonu 1 000 000 kr. Með bréfi dags. 17. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að hækka reiknað endurgjald á þeim forsendum er að ofan greinir með tilvísan til 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 96. gr. skattalaga. Var gefinn 10 daga svarfrestur frá dagsetningu bréfsins. Af gögnum málsins verður ráðið, að tilkynning skattstjóra hafi af kæranda verið endursend skattstjóra með þeirri athugasemd kæranda, að hann mótmæli því að honum væru reiknuð laun er hann hefði ekki haft. Er tilkynningin með andmælum kæranda móttökustimpluð af skattstjóra 22. júlí 1980. Skattstjóri ákvað síðan frumálagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1980 á grundvelli þeirra breytinga er hann boðaði í bréfi sínu, dags. 17. júlí 1980. Eigi verður séð af gögnum málsins að skattstjóri hafi gætt ákvæða 3. mgr. 96. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og tilkynnt kærendum skriflega um þær breytingar er hann gerði og um ástæður til þeirra. Af þessum ástæðum þykir bera að fella hinar kærðu breytingar úr gildi. Það er að athuga við bréf skattstjóra, dags, 17. júlí 1980, að eigi verður sama breyting skattframtals gerð bæði með stoð í 1. mgr. 95. gr. og 1., sbr. 3. mgr., 96. gr. nefndra laga.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja