Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 748/1981
Gjaldár 1978
Lög nr. 68/1971, 15. gr.
Endurupptaka ríkisskattanefndar — Skattframtal ófullnægjandi — Fyrnanleg eign — Einkaumboð — Einkaleyfi — Öflun einkaleyfis — Áætlun
Með bréfi dags. 29. janúar 1980 er þess farið á leit af hálfu kæranda að endurupptekinn verði úrskurður ríkisskattanefndar nr. 1192, dags. 3. desember 1979, í kærumáli varðandi álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1978.
Málavextir voru þeir, að kærandi taldi ekki fram til skatts gjaldárið 1978. Skattstjóri áætlaði kæranda því gjaldstofna til álagningar opinberra gjalda það ár. Með kæru til ríkisskattanefndar, dags. 25. september 1978, sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1978 og fór þess á leit að það yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar. Gerð var grein fyrir ástæðum fyrir töfum á framtalsskilum.
Ríkisskattstjóri gerði þær kröfur, að kærunni yrði vísað frá og gerði grein fyrir ýmsum þáttum framtals er hann taldi leiða til þess að ekki yrði álagning byggð á því. Vörðuðu athugasemdir þessar m. a. innflutning vara, fyrningu einkaleyfis, skuld við X hf., gjaldfærslu affalla, notkun véla og áhalda, fasteignamat húseignar væri rangt, vantandi sundurliðun hlutabréfaeignar. Af ársreikningi yrði ráðið að starfsemi kæranda hefði legið að mestu niðri árið 1977. Einu tekjurnar væru sagðar vextir og húsaleigutekjur frá ónefndum aðila. Kæranda voru sendar athugasemdir ríkisskattstjóra til umsagnar þann 7 maí 1979. Bráðabirgðasvar barst þann 9. maí 1979 og óskað eftir fresti til loka júlímánaðar 1979 til andsvara. Boðað svar barst ekki fyrir þann tíma og með úrskurði nr. 1192 3. desember 1979 vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá á þeim forsendum að málið væri vanreifað, þegar litið væri til þess, hversu atvikum þess væri háttað og með tilliti til að boðaðar skýringar og svör hefðu ekki borist.
Í bréfi dags. 7. janúar 1980 bárust svör kæranda víð fyrrgreindum athugasemdum og með bréfi dags. 29. s. m. er þess farið á leit að frávísunarúrskurður í kærumálinu verði endurupptekinn með vísan til framkominna skýringa í fyrstnefndu bréfi. í því bréfi upplýsir kærandi um húsaleigutekjur og leigutaka og færslu efnisbirgða. Þá gefur kærandi þær skýringar á vörusendingum á nafni félagsins, að það hafi ekki leyst neina þeirra út heldur aðrir aðilar sem tilgreindir eru. Kærandi víkur að skuld félagsins við X hf. og viðskiptum við það fyrirtæki. Kemur fram að hluthafar í þessum félögum séu að mestu hinir sömu, en ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort sameina skuli félogin eða hvaða hlutverki hvort félag eigi að gegna í framtíðinni. Af þessum sökum hafi reksturinn að mestu legið niðri á árinu 1977.. Gefnar eru skýringar á sölu fasteigna, afföllum, hlutafjáreign og leiðrétt er fasteignamat sem vanfært var í ársreikningi. Bréfinu fylgdi kaupsamningur, dags. 31. maí 1976, þar sem H sf. selur kæranda „einkasöluumboð seljanda á Íslandi fyrir N A/S, en umboð fyrir þetta fyrirtæki hefur seljandi haft síðan 1965“, eins og í samningnum segir. Kaupverð var 12 000 000 kr. Um heimild til fyrningar þessa er af hálfu kæranda vísað til 15. gr. laga nr. 68/1971.
Í umsögn ríkisskattstjóra, dags. 5. janúar 1981, um endurupptökubeiðnina er þess krafist að beiðninni verði hafnað, þar sem telja verði málið enn næsta óupplýst af kæranda hálfu og skýrslur hans varðandi eignahreyfingar á árinu 1977 í verulegum atriðum tortryggilegar.
Fallist er á að endurupptaka fyrri frávísunarúrskurð með því að skýringa kæranda eru fram komnar. Eigi þykir unnt að leggja skattframtal kæranda árið 1978 til grundvallar álagningu og verður í því sambandi að fallast á athugasemd ríkisskattstjóra. Þá verður eigi talið, að einkaumboð það, er kærandi keypti á árinu 1976, sbr. framlagðan kaupsamning, geti talist fyrnanleg eign í skilningi 15. gr. skattalaga, enda ekki um öflun einkaleyfis að ræða svo sem ranglega virðist talið í ársreikningi. Hins vegar þykir með hliðsjón af atvikum málsins mega fella niður álagðan tekjuskatt og skyldusparnað og sérstakan skatt af atvinnurekstri gjaldárið 1978 og lækka stofn til álagningar aðstöðugjalds í 500.000 kr. Þá þykir bera að fella niður álagt iðnlánasjóðs- og iðnaðarmálagjald, enda verður ekki séð að kærandi hafi stundað gjaldskylda starfsemi á árinu 1977.