Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 264/1992
Gjaldár 1991
Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 31. gr. 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 1. mgr. 3. ml. — 96. gr. 1. og 3. mgr.
Bifreiðakostnaður — Bifreiðahlunnindi — Rekstrarkostnaður — Bifreið — Kennslubifreið — Ökukennari — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar —Fylgigögn skattframtals — Breytingarheimild skattstjóra — Fyrirspurnarskylda skattstjóra — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan
Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 26. júlí 1991, tilkynnti skattstjóri kæranda, sem er ökukennari, að hann hefði fært honum til tekna 172.550 kr. áætluð einkanot af kennslubifreið hans. Væri þá miðað við 7.000 km akstur og væri hlunnindamat metið 24,65 kr. á kílómetra.
Af hálfu kæranda var breyting skattstjóra kærð með kæru til hans, dags. 15. ágúst 1991. Taldi kærandi sig engin einkanot hafa haft af bifreiðinni. Hefði hún eingöngu verið notuð sem kennslubifreið og framtalinn rekstrarkostnaður bifreiðarinnar einvörðungu tilheyrt henni.
Með kæruúrskurði, dags. 7. október 1991, synjaði skattstjóri kröfu kæranda á svohljóðandi forsendum:
„Bifreiðin er eina bifreiðin á heimili kæranda og engin bifreiðahlunnindi eru talin fram á framtali kæranda. Enginn rökstuðningur kemur fram er skýri að um engin bifreiðaafnot er að ræða. Rétt er að benda á að um töluverð bifreiðaviðskipti koma fram á framtölum 1989 og 1990 og á báðum framtölum eru tvær bifreiðar taldar fram til eignar. Ekki er því fallist á það án frekari skýringa að ekki sé um nein einkaafnot að ræða af ofangreindri bifreið.“
Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 9. október 1991. Með kærunni er lögð fram greinargerð um rekstur bifreiðarinnar (RSK 4.03). Samkvæmt greinargerðinni er kostnaður pr. ekinn km 12,96 kr. Er þess óskað, að greinargerðin verði lögð til grundvallar kostnaði pr. ekinn kílómetra miðað við, að kærandi hafi notað bifreiðina í eigin þágu er samsvari 5.000 km eða 64.800 kr. í stað áætlunar skattstjóra 172.500 kr. Í skattframtali kæranda komi fram, að fyrstu fjóra mánuði ársins hafi framteljendur átt tvær bifreiðar og hafi önnur bifreiðin verið til einkanota. Hafi sú bifreið verið seld á árinu vegna annarrar fjárfestingar. Hafi það verið markmið kæranda að nota kennslubifreiðarnar eins lítið og unnt væri í eigin þágu til að rýra ekki verðgildi þeirra. Hefði kærandi dvalið erlendis í 6 vikur á árinu, þannig að kennslubifreiðin hafi ekki verið notuð til ferðalaga innanlands.
Með bréfi, dags. 14. janúar 1992, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda þyki mat skattstjóra á einkanotum af bifreið kæranda ekki úr hófi fram.
Skattstjóri fór með hina kærðu breytingu eftir 3. ml. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en ekki eftir 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga svo sem rétt hefði verið. Þessi málsmeðferð skattstjóra leiddi til þess, að kæranda gafst ekki færi á að gæta hagsmuna sinna og koma að athugasemdum sínum, skýringum og eftir atvikum gögnum, áður en skattstjóri ákvað hina kærðu breytingu. Málsmeðferð skattstjóra þykir því hafa verið þeim ágöllum haldin, að ómerkja ber hina kærðu breytingu af þeim sökum. Rekstraryfirlit fólksbifreiðar (RSK 4.03) hefur kærandi látið fylgja kærunni til ríkisskattanefndar. Eftir öllum atvikum þykir rétt að ákvarða bifreiðakostnað á rekstrarreikningi 324.000 kr. í samræmi við kröfu kæranda og innsenda skýrslu hans.