Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 778/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 5. gr., 6. gr., 37. gr.
Skattskylda — Atvinnurekstur — Almenningsheill — Undanþága frá skattskyldu — Stangveiðifélag — Utanfélagsviðskipti — Skattfrelsi — Ófullnægjandi reikningsskil — Reikningsskil
Kærandi skilaði skattframtali árið 1979 er móttekið var af skattstjóra þann 19. mars 1979. Var skattframtalið lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda það ár. Með kæru dags. 25. júlí 1979 var þess krafist af hálfu kæranda, að álögð opinber gjöld yrðu niður felld með tilvísun til 5. og 6. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Var þess getið að stangveiðifélagið væri stofnað í þeim tilgangi að taka á leigu ár og vötn til endurleigu til félagsmanna sinna og annarra áhugamanna um stangveiði. Jafnframt væri tilgangurinn að koma af stað fiskirækt eða auka hana og stuðla að fiskeldi. Allt starf í þágu félagsins væri unnið í sjálfboðavinnu.
Með úrskurði dags. 28. janúar 1980 hafnaði skattstjóri kröfu kæranda og ákvað að álögð gjöld skyldu óbreytt standa. Telja yrði, að félagið ræki atvinnu og nyti því ekki undanþágu frá tekjuskatti og eignarskatti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki væri kæranda veitt skattfrelsi með sérstökum lögum og reikningsskilin bæru ekki með sér, að hagnaði væri einungis varið til almenningsheilla, þannig að undanþága A-liðs 5. gr. laga nr. 68/1971 gæti tekið til kæranda.
Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 14. febrúar 1980 og krefst niðurfellingar hinna álögðu gjalda með vísan til sömu skattfrelsisröksemda. Kærandi kveður sig hafa staðfestingu fyrir því, að stangveiðifélag í Reykjavík og nágrenni, er starfi á sama grundvelli, þurfi ekki að greiða gjöld af því tagi sem krafist er niðurfellingar á.
Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 24. september 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.
Af hálfu kæranda hefur komið fram að viðskipti eru bæði við félagsmenn og aðra. Engin skipting hefur þó verið gerð að þessu leyti í fyrirliggjandi reikningsskilum. Með því að fyrrnefnd skipting viðskipta annars vegar við félagsmenn og hins vegar við utanfélagsmenn liggur ekki fyrir af hendi kæranda þykir málið af hans hálfu í þeim mæli vanreifað að kærunni beri að vísa frá að svo stöddu.