Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 794/1981

Gjaldár 1977, 1978, 1979

Lög nr. 68/1971, A-liður 12. gr., 36. gr.  

Endurákvörðun — Afföll — Hlutabréf—Sönnun — Milliganga lögmanns — Verðbréfamiðlun — Lögmaður — Trúnaðarskylda lögmanns — Upplýsingaskylda gagnvart skattyfirvöldum

Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi dags. 27. nóvember 1979 og svari kæranda, dags. 4. desember 1979, við því bréfi, boðaði skattstjóri kæranda með bréfi dags. 24. janúar 1980 að fyrirhugað væri að taka skattframtöl hans árið 1976,1977,1978 og 1979 til endurálagningar og gera á þeim ýmsar nánar tilgreindar breytingar, þ. á m. fella niður gjaldfærð afföll í skattframtölum árin 1977,1978 og 1979, en sá þáttur málsins er af hálfu kæranda kærður til ríkisskattanefndar með kæru dags. 30. maí 1980.

Málavextir að því er þennan þátt snertir eru sem hér segir:

Í fyrrnefndu bréfi dags. 27. nóvember 1979 krafði skattstjóri kæranda um gögn og skýringar um affallaútreikning í V. lið skattframtals árið 1979. Í téðum lið voru færð til frádráttar afföll I 436 890 kr., afföll IV 136 000 kr. og afföll V 60 750 kr. í athugasemdum með skattframtalinu greindi kærandi m. a. frá því, að hann hefði selt X hf. skuldabréf að nafnverði 2 984 451 kr. á 800 000 kr. og keypt hlutabréf í X hf. að nafnverði 800 000 kr. á sama af félaginu. Þá kom fram í athugasemdum þessum, að á árinu 1978 hefði kærandi selt bifreið þann 30.12. 1978 á 2 984 451 kr. Með svarbréfi sínu, dags. 4. desember 1979, sendi kærandi kvittun X hf., dags. 31.12 1978, fyrir greiðslu nefnds hlutafjár með fyrrgreindu skuldabréfi. Þá gat kærandi þess, að hann gerði ekki ráð fyrir að verið væri að spyrja um 4— 5 ára gömul afföll, er væru löngu afgreidd. Þá gerðist það í málinu, að skattstjóri reit lögmanni þeim bréf þann 10. desember 1979 er annast hafði um sölu handhafaveðskuldabréfa að fjárhæð alls 1 700 000 kr. á árinu 1975. Krafðist skattstjóri þess, að lögmaðurinn upplýsti um, hverjum bréfin hefðu verið seld og á hvaða verði. Afrit svarbréfs lögmannsins, dags. 19. desember 1979, liggur fyrir í málinu. Kvaðst lögmaðurinn hafa annast sölu bréfanna, er kærandi hugðist selja með afföllum vegna fjáröflunar til húsbyggingar. Með vísan til trúnaðarskyldu kvaðst lögmaðurinn ekki geta upplýst um kaupanda, en um fjárhæð affalla taldi hann mega leggja til grundvallar upplýsingar kæranda.

Að svo búnu boðaði skattstjóri kæranda endurupptöku skattframtala árin 1977—1979 með bréfi dags. 24. janúar 1980, m.a. niðurfellingu affalla að fjárhæð 436 890 kr. á skattframtali árið 1979 og 136 000 kr. á skattframtölum árin 1977, 1978 og 1979. Um hið fyrstnefnda byggði skattstjóri á því að kaupverð hlutabréfa væri skv. kvittun 2 984 451 kr. Af hálfu kæranda var þessum fyrirhuguðu breytingum mótmælt með bréfi dags. 6. febrúar 1980. A það var bent að kaupverð bréfanna væri 800 000 kr. skv. kvittun og í bókhaldi hlutafélagsins hlytu afföllin að hafa verið tekjufærð. Þá var vísað til þess að kærandi hefði greint frá því hvaða aðili hefði annast milligöngu um sölu annarra skuldabréfa.

Með bréfi dags. 28. mars 1980 endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld gjaldárin 1977,1978 og 1979. Byggði skattstjóri nú á því, að því er afföll að fjárhæð 436 890 kr. varðaði, að með tilliti til þess sem fyrir lægi um söludag bifreiðar hefði umrætt skuldabréf ekki verið í eigu kæranda í árslok 1978. Þegar af þeirri ástæðu bæri að strika gjaldfærð afföll út.

Þá hefði nefnt skuldabréf gengið til kaupa á hlutabréfum að fjárhæð 800 000 kr. Af þeirri ástæðu og með vísan til úrskurðar ríkisskattanefndar nr. 205/1974 bæri að strika afföllin út. Að því er snerti afföll að fjárhæð 136 000 kr. hvert áranna 1977—1979 vísaði skattstjóri til þess að svör hefðu verið ófullnægjandi af hálfu kæranda og væru afföllin á þeim forsendum felld niður.

Með skattbreytingarseðlum, dags. 28. mars 1980, tilkynnti skattstjóri kæranda um þær hækkanir áður álagðra opinberra gjalda sem af breytingum skattframtalanna leiddi, þ, á m. vegna niðurfellingar affalla.

Með kæru til skattstjóra, dags. 22. apríl 1980, krafðist kærandi þess að gjaldfærð afföll yrðu tekin til greina. Tók kæran til gjaldáranna 1977, 1978 og 1979. Var þess krafist sérstaklega, að afföll af skuldabréfi að fjárhæð 2 984 451 kr. yrðu tekin til greina. Fylgdi kærunni staðfesting endurskoðanda X hf., dags. 2. apríl 1980, að kaup kæranda á hlutabréfum í félaginu á 800 000 kr. með skuldabréfi að fjárhæð 2 984 451 kr. hefðu verið færð í bókhaldi X hf. árið 1978.

Með úrskurði dags. 2. maí 1980 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda á þeim forsendum að kærandi hefði ekki sýnt fram á að hann hefði sætt neinum afföllum.

Úrskurði skattstjóra er af hálfu kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru dags. 30. maí 1980. Krefst kærandi þess, að gjaldfærð afföll þau er skattstjóri strikaði út verði að fullu tekin til greina. Til viðbótar áður fram komnum rökstuðningi bendir kærandi á, að hann hafi á árinu 1979 selt þau sömu hlutabréf og hann keypti í X hf. ásamt allri annarri hlutabréfaeign í félaginu og hefði söluverð verið nafnverð. Ljósrit af sölukvittun, dags. 1. nóvember 1979, fylgdi. Kærandi gerir og grein fyrir því að á árinu 1976 hafi hann gefið út handhafaveðskuldabréf samtals að fjárhæð 1 700 000 kr. svo sem fram kæmi í skattframtali árið 1976. Fyrir bréfin hefði kærandi fengið greiddar 1 020 000 kr. og afföll því numið 680 000 kr. Fyrir lægi staðfesting lögmanns þess sem annast hefði um sölu bréfanna að rétt væri með farið.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 28. september 1981:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.

Eigi verður séð að fram séu komnar neinar upplýsingar eða nein gögn sem bent gætu til að unnt sé að heimila kæranda umkrafðan skattafrádrátt vegna meintra affalla sem hann tjáir sig hafa sætt við afhendingu og sölu skuldabréfa á árinu 1978.“

Með kæru, dags. 22. apríl 1980, til skattstjóra er kærandi að því er best verður séð að kæra hækkun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárin 1977, 1978 og 1979 í tilefni þeirra breytinga, er skattstjóri gerði á gjaldfærðum afföllum á skattframtölum þessi ár og að framan er lýst. Úrskurður skattstjóra, dags. 2. maí 1980, lýtur þó einungis að gjaldárinu 1979 og gjaldfærslu affalla vegna viðskipta með skuldabréf á árinu 1978. Þrátt fyrir þessa annmarka á kæruúrskurði skattstjóra þykir svo sem mál þetta liggur fyrir eigi tilefni til þess að vísa kærunni frá, að því er gjaldárin 1977 og 1978 varðar á þeim forsendum að kæranlegan úrskurð skorti. Fyrir liggur af hálfu kæranda að hann hafi gefið út á árinu 1976 handhafaveðskuldabréf að fjárhæð 1 020 000 kr. Með því að kærandi var þannig sjálfur útgefandi bréfa þessara taka reglur um afföll af seldum verðbréfum samkvæmt A-lið 12. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, því ekki til viðskiptanna. Eins og gögn málsins liggja fyrir þykir kærandi eigi hafa sýnt fram á að með afhendingu skuldabréfs til X hf. gegn hlutafé í félaginu hafi hann sætt afföllum. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra að niðurstöðu til.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja