Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 797/1981

Lög 10/1960, 15. gr., 21. gr., 25. gr. 26. gr.   Lög nr. 68/1971, 3. mgr. 37. gr.  

Skattsvik — Söluskattur — Ítrekun — Skattrannsókn — Bókhaldsóreiða — Skattsekt — Skattrannsóknarstjóri — Framsending skattrannsóknarstjóra — Rannsókn skattstjóra — Birting refsikröfu — Stefnuvottar — Fyrning sakar

Með bréfi dags. 17. nóvember 1980, mótteknu 11. desember 1980, hefur skattrannsóknarstjóri krafist þess að ríkisskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál X, H-götu 144, Reykjavík.Í því bréfi er svofelld kröfugerð:

„Rannsóknardeild ríkisskattstjóra tók til athugunar bókhald gjaldanda og söluskattsskil söluskattstímabilin 1. ágúst til 31. desember 1977 vegna sölu á sjónvarpstækjum. Tekin var saman skýrsla um athugunina og send gjaldanda með bréfi dags. 7. febrúar 1978.

Niðurstöður skýrslunnar leiddu m. a. í ljós, að ekkert bókhald hafði verið fært vegna rekstrarársins 1977. Engum söluskattsskýrslum hafði verið skilað varðandi sölu á sjónvarpstækjum.

Engin örugg skráning var haldin á veltu fyrirtækisins nefnd tímabil.

Ríkisskattstjóri gerði gjaldanda að greiða söluskatt í samræmi við þá áætluðu söluskattsskyldu veltu sem fram kemur í skýrslu rannsóknardeildar ríkisskattstjóra.

Gjaldandi sendi beiðni dags. 28. apríl 1978 til ríkisskattstjóra, þar sem þess er farið á leit, að úrskurður ríkisskattstjóra um hækkun á sölugjaldi gjaldanda fyrir söluskattstímabilin ágúst — desember 1977 verði leiðréttur.

Ríkisskattstjóri varð við beiðninni og lækkaði söluskattinn téð tímabil.

Gjaldandi sendi aðra beiðni dags. 7. apríl 1979 til ríkisskattstjóra er var hafnað.

Með bréfi dags. 7. júní 1979 fer Skattstofa Reykjavíkur þess á leit við skattrannsóknarstjóra, að hann taki afstöðu til frekari rannsóknar hennar á málum gjaldanda. Skattrannsóknarstjóri svarar með bréfi dags. 11. júní 1979, þar sem Skattstofu Reykjavíkur er falið að annast frekari rannsókn málsins og ljúka því með vísan til ákvæða 3. mgr. 37. gr. laga nr. 68/ 1971 um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 15. gr. laga nr. 10/1960 umsöluskatt, sbr. 10. gr. laga nr. 10/1974.

Skýrsla Skattstofu Reykjavíkur fyrir rekstrarárið 1978 var send gjaldanda með bréfi dags. 24. júlí 1979, en í henni kemur m. a. fram, að gjaldandi hafi á engan hátt bætt úr óreiðu bókhalds og söluskráningar þrátt fyrir ábendingar og aukin umsvif.

Skattstofa Reykjavíkur áætlaði gjaldanda söluskattsskylda veltu umrædd tímabil og hækkaði sölugjald til samræmis við það.

Endanleg hækkun ríkisskattstjóra vegna tímabilanna 1. ágúst — 31. desember 1977 á sölugjaldi varð sem hér segir:

Ár 1977 Hækkun söluskatts, kr. Viðurlög kr.

Sept. 837 361 146 538
Okt. 555 773 88 923
Nóv. 1 041 593 151 030
Des. 2 370 306 308 139

Samt. kr. 4 805 033 694 630

Hækkun Skattstofu Reykjavíkur á sölugjaldi vegna rekstrarársins 1978 var 16 666 000 kr. auk viðurlaga. Gjaldandi kærði ekki skatthækkun þessa,

Skv. gögnum málsins skýrði gjaldandi á umræddum rekstrarárum rangt frá tekjum sínum þannig, að hann greiddi lægra sölugjald en vera átti.

Telja verður að þetta varði gjaldanda sektum skv. 1. mgr. og 2, mgr. 25. gr. laga svo og 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/1960 sbr. 14. gr. laga nr. 10/1974, þar sem um ítrekuð brot er að ræða.“

Með bréfi ríkisskattanefndar, dags. 14. júlí 1981 og birtu 6. ágúst 1981 af stefnuvottum, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kæru. Hefur hann ekki tekið til varnar fyrir nefndinni.

Af því sem fram hefur komið í málinu má telja sannað að gjaldandi hafi á árunum 1977 og 1978 dregið undan söluskatt með þeim hætti að varði við 2, mgr. 25. gr. laga nr. 10/1960, um söluskatt, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 10/1974. Fyrir brot þetta telst sekt hæfilega ákveðin 5 000 000 gkr. og er þá tekið tillit til þess að söluskattshækkunin er alfarið byggð á áætlun og gjaldanda hefur áður verið gert að greiða viðurlög skv. 1. tl. 2. mgr. 21. gr. nefndra laga með síðari breytingum. Þá hefur einnig verið höfð hliðsjón af því sektarhámarki sem lögfest er í 1. mgr. 26. gr. sömu laga. ítrekunarákvæði síðastnefndu greinarinnar eiga hér ekki við. Refsikröfur skv. 1. mgr. 25. gr. teljast fyrndar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja