Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 825/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 75/1981, 5. gr., 2. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr., 53. gr., 95. gr., 99. gr., 100. gr.
Álagning skattstjóra — Reiknað endurgjald — Hjón — Sköttun hjóna — Málsmeðferð áfátt — Andmælareglan — Skattmat — Matsverð bústofns — Matsreglur ríkisskattstjóra — Kæruheimild — Kröfugerð — Verðbreytingarfærsla — Bústofn
Kærðar eru eftirtaldar breytingar skattstjóra á skattframtali kærenda árið 1980: 1. Að færa eiginmanni til tekna 1 793 000 kr. sem reiknað endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur á árinu 1979. Skattstjóri tilkynnti eiginmanni breytingu þessa með bréfi dags. 1. ágúst 1980, og ákvað í kæruúrskurði sínum, dags. 2. desember 1980, að hún skyldi standa óbreytt. 2. Lækkun gjaldfærslu vegna verðbreytingar, sbr. 53. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Skattstjóri tilkynnti eiginmanni breytingu þessa einnig í nefndu bréfi sínu frá 1. ágúst 1980. Ástæða þessarar breytingar er sú að við útreikning verðbreytingarfærslunnar miðaði skattstjóri við helming af matsverði bústofns eins og hann var metinn í landbúnaðarskýrslu ársins áður, þ. e. 31. desember 1978. Kærandi telur hins vegar að miða hefði átt „við skattmat búpenings í byrjun reikningsárs“, þ. e. ársins 1979. Á verðbreytingarfærslublaði því sem fylgir skattframtali kæranda miðar hann hins vegar við helming af matsverði bústofns eins og hann var í árslok 1979.
Af hálfu ríkiskattstjóra er með bréfi dags. 12. júní 1981 gerð svofelld krafa: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Um l.
Eins og fram hefur komið tilkynnti skattstjóri um þá breytingu á skattframtali 1980 að reikna eiginmanni endurgjald vegna vinnu við eigin atvinnurekstur, en hann hafði engar slíkar tekjur tilfært í framtali sínu þrátt fyrir atvinnurekstur sinn. Síðan úrskurðaði skattstjóri að breytingin skyldi standa óbreytt. Við athugun á framtalsgögnum kærenda og álagningarblöðum kemur í ljós að skattstjóri hefur í raun reiknað eiginkonu endurgjaldið en ekki eiginmanni. Hefur tekjuframtali hennar verið breytt vegna þessa og stofn til tekjuskatts og útsvars ákvarðaður við álagningu í samræmi við þá breytingu. Ekki hefur eiginkonan verið krafin skýringa á tekjuframtali sínu og breytingu skattstjóra var ekki beint að því. Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir bera að fella þessa breytingu úr gildi.
Um 2.
Þrátt fyrir að kæruefnið, sem um er getið undir þessum tölulið hér að framan, hafi ekki verið borið undir skattstjóra í kæru til hans þykir rétt að taka það til efnismeðferðar. Er ákvörðun skattstjóra um þetta atriði staðfest.