Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 826/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981   Bráðab. lög nr. 96/1978, 8. gr.   Lög nr. 68/1971, 12. gr.  

Frádráttarbærni eignarskatts — Eignarskattur — Álagður eignarskattur — Reiknaður eignarskattur — Eignarskattsauki — Lögaðili — Lögskýring — Umræður á Alþingi — Frádráttarheimild

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til gjalda álagðan eignarskatt gjaldárið 1979 að fjárhæð 109 176 kr. og reiknaðan eignarskatt gjaldárið 1980 að fjárhæð 126 494 kr. eða samtals 235 670 kr. Með bréfi dags. 29. ágúst tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldaliðir þessir hefðu verið felldir úr rekstrarreikningi og tekjur hækkaðar sem þessu næmi. Þessi breyting var kærð af hálfu kæranda með bréfi dags. 22. september 1980. Vísaði kærandi til þess, að lög nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, hefðu að stofni til verið enn í gildi árið 1979 og væri alveg tvímælalaust að eignarskattur álagður á félög það ár væri frádráttarbær frá tekjum, sbr. 12. gr. laganna. Var og á það bent, að sama gilti um eignarskattsauka, sbr. bráðabirgðalög nr. 96/1978, 8. gr. Þá vék kærandi að lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt. Hvergi væri þar að finna ákvæði um hvort eignarskattur lögaðila skyldi vera frádráttarbær frá tekjum og ekki kæmi það fram í athugasemdum. I umræðum á Alþingi um frumvarp til nefndra laga hefði þó komið fram það sjónarmið að eignarskatturinn skyldi ekki frádráttarbær. Ýmis fleiri rök færði kærandi fyrir máli sínu. Rök hans voru þau, að eignarskattur ársins 1979 væri samkvæmt þágildandi skattalögum frádráttarbær og í núgildandi skattalögum væri hvergi að finna fyrirmæli um að eignarskattur skyldi ekki frádráttarbær frá tekjum, áður en tekjuskattur væri á þær lagður.

Með úrskurði dags. 19. mars 1981 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda á þeim forsendum að í lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, væri ekkert samsvarandi ákvæði að finna og hefði verið í áður gildandi skattalögum varðandi frádráttarbærni eignarskatts frá tekjum lögaðila. Samkvæmt gildistökuákvæðum fyrrnefndu laganna hefðu þau komið til framkvæmda við álagningu skatta á árinu 1980 vegna tekna ársins 1979 og eigna í lok þess árs. Þar sem heimild fyrir frádrætti greidds eignarskatts félaga (lögaðila) væri felld út úr lögunum og heimild fyrir frádrætti eignarskatts, er álagður væri á gjaldárinu, hefði aldrei verið fyrir hendi, yrði að synja kröfu kæranda.

Úrskurði skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 15. apríl 1981. Krefst kærandi þess að hinir umdeildu liðir verði leyfðir til frádráttar. Um ágreiningsefnið væri ekki að finna ákvæði í núgildandi skattalogum og hefði hvorki fjármálaráðherra né skattstjóri heimild til þess að ganga lengra en lögin mæltu beinlínis fyrir um.

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist í málinu með bréfi dags. 25. maí 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Lagaheimild skortir fyrir hinum umkrafða frádrætti. Með tilvísan til þess er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja