Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 832/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 61. gr., 100. gr.  

Tekjuuppgjör — Verkfræðiþjónusta — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kæruheimild — Frávísun — Valdsvið ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali árið 1980 á framtalsfresti það ár. Skattframtali kæranda fylgdi bréf hans, dags. 19. apríl 1980, þar sem hann fór þess á leit, að á sig yrðu lögð opinber gjöld miðað við greidda þjónustu en ekki unna þjónustu samkvæmt heimild í 61. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Bréfi þessu fylgdi afrit af bréfi kæranda, dags. sama dag, til ríkisskattstjóra vegna sama erindis. I því bréfi voru tilgreindar ástæður fyrir beiðninni. Kvaðst kærandi hafa selt verkfræðiþjónustu sína á árinu 1979 X hf. og hefði verið sendur út launamiði á sig vegna þessarar þjónustu, þar sem tilfærð væri greiðsla til sín sem verktaka að fjárhæð 16 210 000 kr. Kærandi kvaðst hins vegar aðeins hafa fengið greiddar 12 758 328 kr. á árinu 1979 og hefði staðið deila um mismuninn, er gæti þó fengist greiddur á árinu 1980 ef viðbótarvinnu yrði skilað.

Með bréfi dags. 25. júlí 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði synjað ofannefndri beiðni hans og mismunur á innsendum launamiða og framtöldum heildartekjum að fjárhæð 3 451 672 kr. hefði verið færður til tekna sem hreinar tekjur af atvinnurekstri.

Með bréfi dags. 22. ágúst 1980 kærði umboðsmaður kæranda opinber gjöld hans gjaldárið 1980 og ítrekaði fyrrgreinda beiðni um frestun á tekjufærslu. Kærunni fylgdi bréf E hf., dags. 31. júlí 1980, þar sem staðfest var að samkvæmt bókhaldi X hf. hefði skuld félagsins við kæranda numið 3 451 671 kr. og hefði sú fjárhæð verið meðtalin á launamiða. Greiðslur til kæranda vegna þjónustu hans á árinu 1979 hefðu því numið samtals 12 758 328 kr.

Með bréfi dags. 28. nóvember 1980 ítrekaði skattstjóri synjun sína. Synjun skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 13. desember 1980. Er þar mótmælt skattlagningu á ógreidda skuld sem enn hafi ekki verið lagðir fram reikningar fyrir. Boðaður er frekari rökstuðningur.

Með bréfum dags. 20. mars 1981 og 28. september 1981 krefst ríkisskattstjóri þess að kærunni verði vísað frá aðallega sökum þess að kæruefnið sé vanreifað af hálfu kæranda, en til vara á þeim forsendum að ekki liggi fyrir ákvörðun skattstjóra er sé kæranleg eftir kæruleið 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kæruefnið þykir liggja nægilega ljóst fyrir í gögnum málsins og verður því eigi séð að efni séu til frávísunar sökum vanreifunar af hendi kæranda svo sem ríkisskattstjóri krefst. Af kæranda hálfu hefur komið fram að deila standi um hina umþrættu mismunarfjárhæð og vinnuframlag eigi innt af hendi. Þá kemur fram að fjárhæðin sé ógreidd og óinnheimt í desember 1980. Þessum staðhæfingum kæranda hefur eigi verið andmælt eða hann krafinn skýringa eða gagna þar um. Þegar þetta er virt og málavextir að öðru leyti þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja