Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 265/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. B-liður 4. tl. — 54. gr. — 91. gr. 1. mgr. — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 9/1984 — II. kafli  

Fjárfestingarsjóður — Fjárfestingarsjóðsreikningur — Fjárfestingarsjóðstillag — Innborgun á fjárfestingarsjóðsreikning — Fjárfestingarfrádráttur — Fjárfesting manna í atvinnurekstri — Stofnfjárreikningur — Innborgun á stofnfjárreikning — Fylgigögn skattframtals — Greinargerð um frádrátt vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir eru þeir, að kærandi stundaði útgerð og námu hreinar tekjur af þeirri starfsemi 6.590.995 kr., er kærandi færði sér til tekna í reit 62 í skattframtali sínu árið 1991. Samkvæmt gögnum málsins hefur skattstjóri hækkað þessa fjárhæð fyrir álagningu um 39.902 kr. eða í 6.630.897 kr. vegna leiðréttingar á gjaldfærðum launaskatti og verður ekki séð, að ágreiningur sé um þessa breytingu.

Hinn 27. ágúst 1991 lagði umboðsmaður kæranda fram kæru við skattstjóra og fór fram á það, að skattstofnar yrðu lækkaðir vegna fjárfestingarsjóðstillags. Sagði svo í kærunni: „Í ljós hefur komið að A lagði kr. 659.000 í fjárfestingarsjóðsreikning við Íslandsbanka hf., sbr. meðfylgjandi eyðublað RSK 3.10.“ Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 4. nóvember 1991. Í úrskurði sínum vísaði skattstjóri til 3. gr. laga nr. 75 (sic) frá 1984 um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Tók skattstjóri fram, að samkvæmt grein þessari gætu einstaklingar, sem legðu fé inn á stofnfjárreikning í því skyni að stofna síðar til eigin atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi hér á landi, dregið þau framlög frá skattskyldum tekjum sínum innan þeirra marka, sem um gæti í 2. gr. laganna. Þá væri frádráttur þessi bundinn því skilyrði, að framlagið væri lagt inn á stofnfjárreikning fyrir lok tekjuárs. Innborgun kæranda á stofnfjárreikning hefði verið lögð inn 31. maí 1991 og kæmi því ekki til frádráttar tekjum ársins 1990.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 2. desember 1991. Er þess krafist, að 659.000 kr.verði dregnar frá útsvars- og tekjuskattsstofnum kæranda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1991. Umrædd fjárhæð hafi verið lögð inn á fjárfestingarsjóðsreikning hinn 31. maí 1991. Það sé misskilningur í úrskurði skattstjóra, að um stofnfjárreikning hafi verið að ræða.

Með bréfi, dags. 21. febrúar 1992, hefur ríkisskattstjóri f.h. gjaldkrefjenda fallist á kröfu kæranda í máli þessu.

Í kæru sinni til skattstjóra, dags. 27. ágúst 1991, fór umboðsmaður kæranda fram á frádrátt fjárfestingarsjóðstillags, en færði fjárhæð umkrafins tillags í greinargerð um frádrátt vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri (RSK 3.10), sbr. lög nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar manna í atvinnurekstri, með síðari breytingum, og byggðist synjun skattstjóra á þeirri skjalfestingu. Samkvæmt 1. mgr. 54. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 36/1991, um breyting á þeim lögum, er hámark fjárfestingarsjóðstillags gjaldárið 1991 10% af þeirri fjárhæð, sem eftir stendur, þegar frá tekjum hafa verið dregnar þær fjárhæðir, sem um ræðir í 1.-10. tölul. 31. gr. laganna. Óumdeilt er, að umkrafin frádráttarfjárhæð sé slíkt tillag, er uppfyllir skilyrði 1. mgr. 54. gr. nefndra laga. Er því fallist á kröfu kæranda, en rétt þykir við ákvörðun fjárhæðar tillagsins að taka tillit til þeirrar hækkunar hreinna tekna kæranda, sem skattstjóri ákvað og fyrr er getið. Samkvæmt þessu verður frádráttarfjárhæð því 663.090 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja