Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 871/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Ófrádráttarbær kostnaður — Rekstrarkostnaður — Lögmannsaðstoð — Málskostnaður
Kærandi, sem rekur bókaverslun, færði til frádráttar lögfræðiaðstoð 950 000 kr. í ársreikningi 1978. Skattstjóri óskaði skýringar og í svarbréfi kæranda kom fram að gjaldfærður lögfræðikostnaður væri til orðinn vegna vinnu við skattamál, en bókhald kæranda hefði verið tekið til skoðunar hjá ríkisskattstjóra og leiddi sú athugun til endurupptöku á skattframtölum kæranda. Þá er þess jafnframt getið að nefnd lögfræði aðstoð taki yfir fleira en skattamál svo sem aðstoð vegna málaferla við Reykjavíkurborg og aðstoð vegna daglegs rekstrar verslunar. Skattstjóri taldi að fengnum upplýsingum kæranda að lögfræðiaðstoð sú, sem um er deilt, tengdist ekki rekstri kæranda á þann hátt að kostnaður vegna hennar gæti talist til rekstrarútgjalda skv. 11. gr. laga nr. 68/1971 og strikaði hann út.
Í kæru til ríkisskattanefndar er þessu mótmælt og þess krafist að kostnaður þessi verði tekinn til greina.
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 12. júní 1981 gerð svofelld krafa: „Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“
Lagaheimild skortir til að heimila hinn umdeilda kostnað til frádráttar og er úrskurður skattstjóra því staðfestur.