Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 879/1981

Gjaldaár 1980

Lög nr. 75/1981, 29. gr., 98. gr., 99. gr.  

Upphaf kærufrests — Auglýsing skattstjóra — Lögbirtingablað — Síðbúin skattkæra — Óviðráðanleg atvik — Málskostnaður — Frádráttarbærni málskostnaðar — Atvinnurekendur

Með bréfi dags. 1. ágúst 1980 tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði verið gerð á skattframtali hans árið 1980, að málskostnaður að fjárhæð 1 150 000 kr., sem færður var til frádráttar, hefði verið felldur niður. Þessa breytingu kærði kærandi með bréfi dags. 26. september 1980. Tók kærandi fram, að vegna fjarveru hefði hann ekki fengið bréf skattstjóra í hendur fyrr en þann dag. Kærandi gerði grein fyrir því, að málskostnaðurinn væri tilkominn vegna málshöfðunar á hendur honum út af skaðabótum vegna slyss, sem orðið hefði um borð í bát, sem kærandi átti og gerði út, vegna hugsanlegrar ábyrgðar hans á slysinu. Bát þennan seldi kærandi á árinu 1978. í dómi var kærandi sýknaður af bótakröfum en kveðst allt að einu hafa þurft að greiða fyrir lögfræðiaðstoð sökum ónógs tildæmds málskostnaðar. Með úrskurði dags. 30. mars 1981 vísaði skattstjóri kærunni frá sem of seint fram kominni. Kærufrestur til skattstjóra Suðurlandsumdæmis vegna álagningar opinberra gjalda 1980 hefði runnið út 17. september 1980. Kæran, sem væri póstlögð 30. september 1980, væri því of sent fram komin.

Úrskurði skattstjóra hefur kærandi skotið til ríkisskattanefndar með bréfi dags. 24. apríl 1981.

Með bréfi dags. 25. maí 1981 krefst ríkisskattstjóri þess að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt getur skattaðili er eigi telur skatt sinn eða skattstofn, þ. m. t. rekstrartöp, rétt ákveðinn, sent skriflega rökstudda kæru, studda nauðsynlegum gögnum, til skattstjóra eða umboðsmanns hans innan 30 daga frá og með dagsetningu auglýsingar skattstjóra um að álagningu samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna sé lokið eða innan 30 daga frá og með póstlagningardegi tilkynningar um endurákvörðun. Með auglýsingu dags. 19. ágúst 1980, er birtist í Lögbirtingablaði því sem út kom þann 27. ágúst 1980, nr. 70/1980, var skv. 1. mgr. 98. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt tilkynnt af hálfu skattstjóra, að álagningu væri lokið á þá menn sem skattskyldir væru hér á landi eftir 1. gr. laganna, þó ekki á börn skv. 6. gr. þeirra. Upphaf kærufrests til skattstjóra þykir eins og hér stóð á bera að miða við útkomudag þess Lögbirtingablaðs sem ofannefnd auglýsing birtist í. Lokadagur kærufrests var því samkvæmt þessu 25. september 1980 en eigi 17. september 1980, svo sem skattstjóri hefur talið. í kæru til skattstjóra, dags. 26. september 1980, tekur kærandi fram að sökum fjarveru hafi úrskurður skattstjóra eigi borist honum í hendur fyrr en þann dag. í málsgögnum kemur fram að kærandi stundaði sjómennsku árið 1980. Þegar litið er til þessa þykja eigi hafa verið efni til frávísunar. Er kæran tekin til efnismeðferðar. Hinn umdeildi kostnaður stafar af málssókn á hendur kæranda vegna útgerðar báts er hann seldi á árinu 1978, en kostnaður þessi féll á kæranda á árinu 1979. Samkvæmt skattframtali árið 1980 hafði kærandi einvörðungu launatekjur auk vaxta af skuldabréfum vegna sölu nefnds báts. Eigi verður séð að fyrir hendi sé lagaheimild til frádráttar þessa kostnaðar frá tekjum kæranda á skattframtali árið 1980.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja