Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 882/1981
Gjaldár 1980
Reglugerð nr. 245/1963, 1. mgr. 2. tl. A-liðs 14. gr. Lög nr. 75/1981, 2. tl. C-liðs 7. gr.
Reiknaðar húsaleigutekjur — Sifjalið — Eigin notkun — Íbúðarhúsnæði — Lögskýring — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat — Arfur — Fyrirframgreiddur arfur — Kvöð — Afnotaréttur
Málavextir eru þeir, að skattstjóri bætti við tekjur kæranda reiknuðum húsaleigutekjum af íbúðarhúsnæði í eigu hans að X-götu 15 í Reykjavík, á þeim forsendum að húsnæðið væri látið í té án endurgjalds. Vísaði skattstjóri til 2. mgr. 2, tl. C-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Voru hinar reiknuðu leigutekjur 2,7% af fasteignamatsverði húss, bílskúrs og lóðar pr. 1.12. 1979, eða af 43 043 000 kr. og námu því 1 162 161 kr. og vitnað til matsreglna, settra af ríkisskattstjóra, varðandi þessa útreikningsreglu.
Af hálfu kæranda er þess krafist að tekjuhækkun skattstjóra verði niður felld. Kærandi gerir þá grein fyrir tildrögum þess að hann eignaðist umrætt íbúðarhúsnæði, að foreldrar hans hafi með yfirlýsingu dags. 28. desember 1976, er fyrir liggur í málinu, afhent honum eignina sem fyrirframgreiddan arf með þeirri kvöð að þau hafi fullan afnotarétt af eigninni meðan þau óski þess, svo sem tekið er fram í yfirlýsingunni. Hafi foreldrar hans nýtt sér þennan rétt og búið í húseigninni og að hluta til leigt hana út. Leigutekjur hafi verið framtaldar hjá þeim. Kærandi heldur því fram, að þrátt fyrir nefndan gerning búi foreldrar hans í raun í eigin húsnæði, enda hafi hann einungis haft af þessari ráðstöfun aukin útgjöld, þ. e. eignarskattsstofn hans hafi hækkað verulega.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 27. október 1981:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til 1. málsliðar, 2. töluliðar, 2. málsgreinar, C-liðar, 7. greinar laga nr. 75/1981 sbr. 116. grein laganna og 2. málsgrein í þætti 2.2.4. í skattmati ríkisskattstjóra skattárið 1979 (framtalsárið 1980) sem gefið var út 25. janúar1980.
Kærandi er ótvíræður eigandi umræddrar íbúðar. Notkun foreldra kæranda á húseign hans getur á engan hátt talist þess eðlis að um hana eigi við ákvæði 2. málsliðar tilgreinds 2. töluliðar, C-liðar skattalaga þannig að talið verði að um notkun kæranda sjálfs hafi verið að ræða.
Athygli skal vakin á því að í málinu liggur fyrir að tekjur af útleigu hluta eignarinnar að X 15 eru taldar fram á framtali notenda hennar. Telur þessar ber kæranda að tilgreina á yfirliti um útleigu húsnæðis og á framtali. Einnig skal bent á að ef notandi eignar greiðir fasteignagjöld hennar ber eiganda að tekjufæra samsvarandi fjárhæð.“
Í 1. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, segir að til skattskyldra tekna skulu m. a. teljast leigutekjur eftir hvers konar fasteignir. í 2. mgr. sama töluliðs er það ákvæði að þegar heildartekjur af einstökum íbúðum ná ekki hlunnindamati húsnæðis, sbr. 116. gr., skuli reikna leiguna til tekna með því mati. Sú undantekning er þar gerð frá þessu að af íbúðarhúsnæði sem skattaðili á og notar til eigin þarfa skuli hvorki reikna tekjur né gjöld. Undanþágu þessa þykir bera að skýra svo að afnot foreldra kæranda af húseign hans teljist falla undir notkun til eigin þarfa í skilningi ákvæðisins. Styðst skýring þessi m. a. við þau sjónarmið, sem fram koma í 1. mgr. 2. tl. A-liðs 14. gr. reglugerðar nr. 245/1963, um tekjuskatt og eignarskatt. Þegar af þessum ástæðum er fallist á kröfu kæranda.