Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 925/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 73/1980, 37. gr. Lög nr. 75/1981, 3. tl. C-liðs 7. gr., 8, gr., 95. gr.
Vaxtatekjur — Bankainnstæður — Breytingarheimild skattstjóra — Aðstöðugjaldsstofn — Umsýslusala — Aðstöðugjald — Ríkisskattanefndarúrskurður — Úrskurður ríkisskatta-nefndar nr. 603, ár 1979 — Dómsúrlausn — Dómur Bæjarþings Reykjavíkur, dags. 26. janúar 1981 — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Úrskurður skattstjóra — Fordæmi — Hæstaréttar-dómasafn, ár 1982, bls. 1831
Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980. Kæruatriði eru sem hér segir:
1. Skattstjóri færði kæranda til tekna vexti af sparisjóðsbókum að fjárhæð 7 168 662 kr. Vaxtatekjur þessar voru í reikningsskilum kæranda færðar á höfuðstólsreikning. Við breytinguna hækkaði skattstjóri varasjóðstillag um 1 792 165 kr. Skattstjóri tilkynnti kæranda um þessa breytingu með bréfi dags. 27. ágúst 1980. Af hálfu kæranda er þessari breytingu mótmælt. Ber kærandi í fyrsta lagi fyrir sig, að breyting skattstjóra sé formlegum annmörkum haldin með því að sér hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um breytinguna, áður en hún var ráðin til lykta, og ekki hafi verið vísað á neinar lagagreinar til stuðnings breytingunni. í öðru lagi er breytingu skattstjóra mótmælt á þeim forsendum, að vaxtatekjur aðila utan atvinnurekstrar séu undanþegnar skattlagningu og sé því ekki um jafnræði að tefla. Bendir kærandi á, að vextir hafi verið færðir til tekna til jafns við gjaldfærða vexti. Einnig var á það bent, að vaxtagjöld og skuldir, sem þau gjöld væru greidd af, væru verulega lægri en inneignir.
Í úrskurði sínum dags. 15. janúar 1981 vísaði skattstjóri til 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga, um tekjuskatt og eignarskatt, varðandi formlega meðferð breytingarinnar. Um skattskyldu vaxta vísaði skattstjóri til 3. tl. C-liðs 7. gr., sbr. 8. gr., sömu laga. Hafnaði skattstjóri kröfu kæranda. í kæru til ríkisskattanefndar ítrekar kærandi gerðar kröfur.
2. Í kæru til skattstjóra, dags. 15. október 1980, krafðist kærandi lækkunar álagðs aðstöðugjalds með vísan til innsendrar greinargerðar um aðstöðugjaldsstofn. Með úrskurði dags. 15. janúar 1981 féllst skattstjóri á að byggja álagningu aðstöðugjalds á fyrrnefndu gagni að öðru leyti en því, að skattstjóri taldi að innkaupsverð mjólkurvara 112 343 404 kr. ætti að falla undir stofninn auk annarra smærri leiðréttinga. Kærandi krefst þess að ákvörðun skattstjóra varðandi kaupverð mjólkurvara verði hrundið, enda hafi gengið þar um úrskurðir ríkisskattanefndar í sambærilegum málum.
Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur með bréfi dags. 1. desember 1981:
„1. Að úrskurður skattstjóra hvað varðar tekjufærslu vaxta verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
2. Kærandi hefur eigi lagt fram nein gögn því til staðfestingar að sala á mjólkurvörum fari fram í umboðssölu. Er því gerð krafa um staðfestingu á úrskurði skattstjóra, einnig hvað þetta atriði varðar.“
Um 1. tl: Úrskurð skattstjóra þykir bera að staðfesta með vísan til forsendna hans að því er þetta kæruatriði snertir.
Um 2. ti: Fyrir lágu úrskurðir ríkisskattanefndar um úrlausnarefni það, er hér um ræðir, í sambærilegum málum, þegar skattstjóri tók hina umþrættu ákvörðun. Þá lá og fyrir dómsúrlausn um sambærilegt álitaefni, þegar ríkisskattstjóri setti fram kröfur sínar í málinu. Sjónarmið hvorutveggja stjórnvaldanna ganga öndvert þessum úrlausnum. Eftir þessu verður ákvörðun skattstjóra að því er snertir þetta kæruefni hnekkt og kröfugerð ríkisskattstjóra vísað frá. Krafa kæranda er því að öllu leyti tekin til greina að því er varðar þennan lið. (Sjá nú dóm hæstaréttar í dómasafni, ár 1982, bls. 1831.)