Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 385/1992

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 100. gr. 5. og 11. mgr. — 101. gr. 3. mgr.  

Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Vítaleysisástæður — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Endurupptökuheimild ríkisskattanefndar — Leiðbeiningar ríkisskattanefndar — Endurákvörðunarheimild ríkisskattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Valdsvið ríkisskattanefndar

Málavextir eru þeir, að með kæru, dags. 6. nóvember 1989, skutu kærendur frávísunarúrskurðum skattstjóra, dags. 9. október 1989, til ríkisskattanefndar. Með úrskurðum þessum vísaði skattstjóri frá kærum kærenda, dags. 7. og 8. júní 1989, út af endurákvörðunum opinberra gjalda gjaldárið 1988, dags. 9. maí 1989, á þeim forsendum, að kærurnar væru of seint framkomnar. Kærufrestur hefði runnið út 7. júní 1989, sbr. 1. ml. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en kærur hefðu ekki komið fram, fyrr en 14. júní 1989. Frávísunarúrskurðum skattstjóra var svo sem fyrr segir skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. nóvember 1989, og var þess krafist, að málin fengju efnislega meðferð. Með úrskurði nr. 713 frá 23. ágúst 1990 staðfesti ríkisskattanefnd hina kærðu frávísunarúrskurði skattstjóra.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 1990, hefur umboðsmaður kærenda farið fram á það við ríkisskattanefnd, að fyrrnefndur úrskurður verði endurupptekinn. Í bréfi umboðsmannsins eru svofelld rök greind fyrir beiðni þessari:

„Í kæru okkar til ríkisskattanefndar voru þau mistök gerð að greina ekki frá ástæðum þess að ekki var kært innan veitts frests. Gífurlegt vinnuálag á endurskoðunarskrifstofum á þessum tíma maí/júní ár hvert þegar keppst er við að skila framtölum innan framtalsfrests er höfuðorsök þessa dráttar. Kærurnar hafa hreinlega misfarist í öllu óðagotinu og pappírsflóðinu sem oft vill verða á þessum tímum. Við höfum enga aðstöðu nú til að véfengja móttökudag skattstjóra og verðum því að taka á okkur sökina sem framteljendum verður ekki um kennt.

Nú er það svo í lögum um tekju- og eignarskatt að skattþegnar og skattyfirvöld hafa gagnkvæma fresti í kærumálum þó mismunandi sé. Skattstjóri úrskurðaði í málinu rúmum fjórum mánuðum frá lokum kærufrests. Ríkisskattanefnd úrskurðaði í málinu níu og hálfum mánuði frá því að nefndinni barst kæran og ríkisskattstjóri sendi nefndinni kröfugerð í málinu tæpum sex mánuðum frá því málið barst honum. Allt er þetta umfram þá fresti sem getið er í 99. gr. og 100. gr. skattalaganna svo væntanlega er vinnuálag og erill víðar en á endurskoðunarskrifstofum. Skattyfirvöld hafa ekki gefið umbjóðendum okkar neinar skýringar á því að ekki var úrskurðað innan veitts frests og þrátt fyrir ákvæði 118. gr. í lögum um tekju- og eignarskatt þá hlýtur að vera full sanngirni í því að fara þess á leit að ríkisskattstjóri vísi kærum okkar aftur til skattstjóra til efnislegrar meðferðar með stoð í 101. gr. l. 75/1981.“

Í tilefni af framkominni endurupptökubeiðni hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur með bréfi, dags. 17. október 1991:

„Með hliðsjón af atvikum öllum fellst RSK á beiðni þessa fyrir sitt leyti og setur fram eftirfarandi kröfugerð.

Að úrskurðir skattstjóra verði staðfestir enda þykja framkomnar skýringar ekki gefa tilefni til annars. Aðilar sem taka að sér framtalsaðstoð fyrir fólk geta ekki skýlt sér bak við vinnuálag í þessum efnum.“

Beiðni kærenda lýtur að því, að áður uppkveðinn úrskurður, þar sem frávísunarúrskurðir skattstjóra voru staðfestir, verði endurupptekinn og kæra tekin til efnisúrlausnar. Veltur úrlausn málsins á því, hvort kærendur hafi fært fram þær ástæður og skýringar, að efni séu til þess að verða við umræddri beiðni, en óumdeilt er, að kært var of seint til skattstjóra. Það fær því ekki staðist, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, að úrskurður nr. 713/1990 verði endurupptekinn og kveðinn upp nýr úrskurður sama efnis. Þær skýringar og röksemdir, sem fram koma í beiðni umboðsmanns kærenda, dags. 29. ágúst 1990, þykja ekki gefa tilefni til endurupptöku úrskurðar nr. 713/1990. Er endurupptökubeiðninni því synjað. Vegna þess, sem fram kemur í niðurlagi beiðninnar, skal tekið fram, að ríkisskattanefnd hefur ekki hliðstæða heimild til breytinga á áður álögðum opinberum gjöldum og ríkisskattstjóri hefur samkvæmt 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Erindum, sem byggjast á nefndu lagaákvæði, ber að beina til ríkisskattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja