Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 946/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, B-liður 7. gr., 1. og 2. mgr. 15. gr., 26. gr. ákvæði til bráðabirgða V  

Bifreiðaviðskipti — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstur — Skattfrelsi söluhagnaðar lausafjár — Ákvörðun söluhagnaðar — Framreikningur stofnverðs — Tómstundastarf

Skattstjóri færði kæranda til tekna 664 000 kr. sem söluhagnað vegna bifreiðaviðskipta á árinu 1979. Kærandi var í fullu launastarfi á árinu 1979. Með skattframtali hans það ár fylgdi greinargerð um kaup og sölu bifreiða á árinu 1979. Samkvæmt því hafði kærandi keypt 8 bifreiðir og selt 6, en 3 bifreiðir voru í eigu hans í lok ársins. Ekki tekjufærði kærandi hagnað af þessum viðskiptum. Skattstjóri taldi bifreiðaviðskipti kæranda falla undir sjálfstæða starfsemi í tekjuöflunarskyni, sem stunduð væri jafnhliða aðalstarfi. Um tekjur af starfsemi þessari giltu ákvæði B-liðs 7. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt og ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga. Rökstuddi skattstjóri niðurstöðu sína með því, að af þeim 6 bifreiðum sem kærandi seldi, hefði hann haft hagnað af sölu 5 þeirra frá 50 000 kr. upp í 400 000 kr. Þá bæri að líta til umfangs bifreiðaviðskiptanna, þ. e. a. s. 8 kaup og 6 sölur á árinu. Væri þetta miklu meira en nauðsynlegt gæti talist til endurnýjunar einkabifreiðar. Þá hefði kærandi undanfarin ár stundað bifreiðaviðskipti í meira mæli en nauðsynlegt gæti talist til venjulegrar endurnýjunar einkabifreiðar. Á árinu 1978 hefðu verið keyptar 2 bifreiðar en 3 seldar og á árinu 1977 hefði verið um að ræða 3 sölur og 4 kaup. t»á væri bifreiðaeign í árslok 1979 óeðlilega mikil miðað við einkaþarfir. Með tilvísan til þessa gat skattstjóri eigi á það fallist að kærandi nyti undanþágu 2. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að tekjuhækkun skattstjóra verði niður felld svo og álagt aðstöðugjald vegna bifreiðaviðskiptanna, enda reki hann enga fasta starfsstöð sem bifreiðasali heldur séu þessi viðskipti stunduð sem tómstundagaman vegna áhuga á bifreiðum og bifreiðategundum. Byggir kærandi á því, að viðskiptin falli undir 2. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, sem kveði svo á um, að hagnaður manns af sölu lausafjár sem ekki sé notað í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi teljist ekki til tekna, enda geri hann líklegt að sala þess falli ekki undir atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi eða eignarinnar hafi ekki verið aflað í þeim tilgangi að selja hana aftur með hagnaði.

Með bréfi dags. 21. maí 1981 er þess krafist af hálfu ríkisskattstjóra að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eigi verður talið að virtu umfangi bifreiðaviðskipta kæranda og öðrum þeim atriðum, sem liggja fyrir í málinu um þessi viðskipti, að um atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi kæranda sé að ræða. Þykir því bera að fella niður álagt aðstöðugjald. Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir bera við ákvörðun á söluhagnaði kæranda af sölu bifreiða að fara eftir ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt að teknu tilliti til ákvæða til bráðabirgða V sömu laga, enda verður eigi talið að kærandi geti notið skattfrelsis samkvæmt þeim ákvæðum sem hann ber fyrir sig.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja