Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 959/1981
Gjaldár 1980
Lög nr. 75/1981, 29. gr.
Rekstrarkostnaður — Ferðakostnaður — Námsferð — Læknir — Frádráttarheimild — Frádráttarbærni
Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali 1980 að leyfa ekki til frádráttar tekjum 776 000 kr., sem kostnaður vegna námsferða til útlanda umfram greiddan styrk.
Í kæru til skattstjóra mótmælir umboðsmaður kæranda þessari breytingu þar eð hér sé um að ræða beinan kostnað manns, í þessu tilfelli læknis, til þess að halda við þekkingu sinni og auka hana með því að kynna sér nýjungar, en mjög hröð framþróun sé í læknisfræði þannig að læknum sé nauðsynlegt að fara til erlendra stofnana mjög oft, jafnvel oft á ári.
Skattstjóri synjaði kærunni með úrskurði upp kveðnum 23. júlí 1981. í úrskurði skattstjóra segir, að samkvæmt frádráttarkafla skattalaganna sé umræddur kostnaður ekki frádráttarbær, sbr. 29. gr. og 1. tl. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 40/1978 með síðari breytingum.
Umboðsmaður kæranda hefur skotið þessu máli til ríkisskattanefndar með kæru dags. 21. ágúst 1981. Eru þar ítrekaðar fyrri kröfur um að breyting skattstjóra verði úr gildi felld.
Af hálfu ríkisskattstjóra er með bréfi dags. 22. október 1981, krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Svo sem mál þetta liggur fyrir þykir af hálfu kæranda eigi hafa verið sýnt fram á að hinn umdeildi kostnaður sé frádráttarbær við ákvörðun tekjuskatts- og útsvarsstofns. Með þessari athugasemd þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.