Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 962/1981
Gjaldár 1979
Lög nr. 68/1971, C-liður 10. gr.
Eftirgjöf skuldar — Hlutafélag — Hlutabréf — Skattskyldar tekjur
Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að færa hlutafélagi til tekna skuld að fjárhæð 2 421 038 kr., sem kröfuhafi hafði gefið félaginu eftir. í skýringum með ársreikningi kæranda fyrir árið 1978 var þess getið, að aðalhluthafi félagsins hefði gefið eftir nefnda skuld félagsins við sig í sambandi við eigendaskipti að hlutabréfum í félaginu. Væri litið svo á, að fjárhæð þessi væri í raun tengd sölu á bréfum aðalhluthafans til nýs eiganda og hún væri því ekki skattskyld.
Skattstjóri taldi bera að færa kæranda, hlutafélaginu, fjárhæð þessa til tekna. Viðskipti hluthafa með hlutabréf væri hlutafélaginu viðkomandi svo fremi þau brytu ekki í bága við samþykktir þess. Einstakir hluthafar gætu aðeins ráðstafað hlutabréfum sínum en ekki ákveðnum eignum og skuldum hlutafélagsins og ekki tengt sölu hlutabréfa sinna ákveðnum breytingum á eignum og skuldum hlutafélagsins.
Af hálfu kæranda er þess krafist aðallega, að tekjuviðbót skattstjóra verði niður felld. Við eigendaskipti að hlutabréfum í félaginu á árinu 1978 hefði seljandi bréfanna og þáverandi aðalhluthafi í kæranda gefið eftir kröfu á félagið að fjárhæð 2 421 038 kr. Eftirgjöf þessi væri í raun tengd sölu bréfanna. Einfaldara hefði þótt að ganga frá þessu með þessum hætti heldur en að hafa verð bréfanna lægra og gefa út önnur skuldabréf fyrir skuldinni. Til vara er farið fram á það, að jafnvirði skuldareftirgjafarinnar verði færð sem skuld hlutafélagsins við eigendur hlutabréfanna.
Af hálfu ríkisskattstjóra er í málinu gerð sú krafa með bréfi dags. 1. desember 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.
Kærandi þykir eigi hafa sýnt fram á að fullnægt hafi verið lagaskilyrðum fyrir því að skuldareftirgjöf teljist eigi til tekna, sbr. C-líð 10. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Með þessum athugasemdum þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra.