Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 966/1981

Gjaldár 1980

Lög nr. 75/1981, 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr., 1. mgr. 110. gr., 116. gr.  

Nám — Námsfrádráttur — Matsreglur ríkisskattstjóra — Starfsreglur ríkisskattstjóra — Tónlistarskóli — Sönnun

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1980.

I

Málavextir eru þeir, að kærandi færði til frádráttar í skattframtali sínu námsfrádrátt að fjárhæð 430 000 kr. vegna náms í píanóleik við Tónskóla D. Tekið var fram í skattframtalinu að um fullt nám væri að ræða. Með bréfi dags. 18. nóvember 1980 krafði skattstjóri kæranda um skólavottorð frá ofannefndum tónlistarskóla þar sem fram skyldi koma tímasókn í klukkustundum á árinu 1979. Vottorð skólastjóra, dags. 21. nóvember 1980, barst skattstjóra og liggur fyrir í málinu. Þar segir svo um nám kæranda: „í vorönn frá byrjun janúar til 10. maí og í haustönn frá byrjun september til áramóta. Hann sótti tvær kennslustundir í viku í aðalnámsgrein og eina stund í kjarnanámsgreinum tónfræði og tónheyrn. X stundaði námið óslitið báðar annirnar.“

Með bréfi dags. 10. febrúar 1981 tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að lækka námsfrádrátt hans í 81 730 kr. Gefinn var 10 daga andsvarafrestur. Ráðgerðri lækkun var mótmælt af hálfu kæranda með bréfi dags. 13. febrúar 1981. Bent var á að fullt nám væri stundað í píanóleik í því skyni að gera hann að ævistarfi. Af eðli námsins leiddi, að tímasókn væri lítil en heimavina mikil (æfingar). Fullt nám í píanóleik krefðist ekki meiri tímasóknar en verið hefði hjá kæranda. Eigi féllst skattstjóri á þessi rök og fylgdi fram boðaðri breytingu með bréfi dags. 5. mars 1981. Kærandi endurtók fyrri rök og kröfur í bréfi dags. 3. apríl 1981. Skattstjóri hafnaði kröfunni með úrskurði dags. 6. maí 1981 með vísan til 3. tl. C-liðs 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og matsreglna ríkisskattstjóra sem eigi heimiluðu námsfrádrátt vegna heimanáms.

II

Af hálfu ríkisskattstjóra er þess krafist með bréfi dags. 3. desember 1981 að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

III

Skattstjóri sýnist hafa byggt ákvörðun sína á fjárhæð námsfrádráttar kæranda á „starfsreglum og leiðbeiningum“ þeim er ríkisskattstjóri sendi skattstjórum í bréfi sínu dags. 19. maí 1980 varðandi námsfrádrátt í skattframtali árið 1980. Virðist um mat á fjárhæð farið eftir 8. mgr. téðs bréfs: „Sé um afbrigðilegan námstíma að ræða við greinda skóla innanlands, svo og um námstíma að ræða í dagnámskeiðum og kvöldnámskeiðum innanlands, skal heimila í námsfrádrátt einungis það hlutfall af námsfrádrætti vegna náms innanlands sem sókn kennslustunda er af 624 klst. (sem taldar eru samsvara sex mánaða námi). Þessi frádráttur ákvarðast eingöngu af þessu hlutfalli og skal standa á heilu hundraði króna. Hér telst þó ekki nám í hvaða formi sem það er sem er í beinum tengslum við starfsþjálfun á vegum atvinnuveitanda og af honum kostað.“

Skattstjóri hefur talið námstíma kæranda 34 vikur og fjölda kennslustunda alls 102, þ. e. a. s. 3 stundir á viku, sem voru sóttir tímar við skólann samkvæmt vottorði hans, reiknað frádráttinn eftir hlutfallinu 102/624 af fullum frádrætti, 500 000 kr., í samræmi við ofangreinda leiðbeiningu í bréfi ríkisskattstjóra.

Kærandi telur nám sitt sökum eðlis þess fara mest fram heima við æfingar. Á það þykir verða að fallast að á þann veg hljóti námi kæranda eðli málsins samkvæmt að vera háttað að talsverðu leyti. Ekki þykir rétt að miða fjárhæð námsfrádráttar kæranda við beina tímasókn í skóla. Eigi verður talið að 3. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1980,116 gr. sömu laga eða önnur ákvæði þeirra hafi veitt heimild til þeirrar meðferðar sem mælt er fyrir um í tilvitnuðum hluta bréfs ríkisskattstjóra. Eigi er hér um að ræða slíkar matsreglur, sem nefnd 116. gr. fjallar um, er og út skulu gefnar.

Staðhæfingar kæranda um heimavinnu við nám hafa út af fyrir sig eigi verið vefengdar. Með tilliti til þess svo og hversu málið liggur fyrir að öðru leyti eru eigi efni til annars en að fallast á fullan námsfrádrátt, sem samkvæmt lögum miðast við að nám sé stundað í a. m. k. 6 mánuði á tekjuárinu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja