Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 13/1980

Gjaldár 1979

Lög nr. 68/1971  

Ófrádráttarbær kostnaður — Kostnaður vegna stjórnmálaþátttöku

Kærð er sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda gjaldárið 1979 að fella með öllu niður tilfærðan kostnað, 434 869 kr., vegna þátttöku í prófkjöri á vegum tiltekins stjórnmálaflokks í tilefni af kosningum til Alþingis. Taldi skattstjóri ekki heimild vera fyrir hendi í skattalögum til slíks frádráttar.

Af hálfu kæranda er þess krafist, að frádráttarliður þessi verði að fullu tekinn til greina með vísan til framlagðra gagna og sundurliðunar kostnaðar þessa.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru í málinu gerðar svofelldar kröfur:

„Ekki er að finna í skattalögum heimildir fyrir frádrætti þeim er kærandi fer fram á, þar sem heimildir til frádráttar frá tekjum ber að túlka þröngt þykir bera að gera kröfur um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur.“

Frádrátt frá skattskyldum tekjum gjaldanda ber því aðeins að veita að til þess sé ótvíræð heimild. Lög nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt, hafa eigi að geyma heimild til frádráttar slíks er hér um ræðir. Með vísan til þessa er úrskurður skattstjóra staðfestur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja